miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Dylgjur um flutningskostnað hvalaafurða ómerkilegur málflutningur"

16. febrúar 2009 kl. 09:27

Segir Kristján Loftsson framkvæmdastjóri Hvals hf.

Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., segir að þær tölur sem nefndar voru á Alþingi í síðustu viku um flutningskostnað á 82 tonnum af frystum hvalaafurðum með flugi til Japans séu fráleitar og úr öllu samhengi við raunveruleikann.

Varaþingmaður Samfylkingarinnar, Mörður Árnason, hélt því fram í fyrirspurn sinni að flutningskostnaðurinn hefði numið 112 milljónum króna en að tekjur af frystu hvalaafurðunum verið 94 milljónir króna. Kristján segir flutningskostnaðinn aðeins brot af þessari tölu.

„Ef þessi óraunverulega tala varaþingmannsins væri rétt þýddi það að verð frystu hvalaafurðanna væri mun hærra en okkur hefur til þessa tekist að selja það á. Okkur finnst við fá sanngjarnt verð fyrir afurðirnar í dag,“ segir Kristján í samtali á vef LÍÚ. Hann segir mestu máli skipta í þessu samhengi að verðið sem Hagstofa Íslands miðar við og varaþingmaðurinn vísar til í þessu tilviki sé FOB-verð, þ.e. verð án flutningskostnaðar.

„Það er mín skoðun að Mörður varaþingmaður, sem augljóslega þekkir ekki einföldustu grunnatriði í vöruútflutningi, ætti að fara varlega með tölur,“ segir Kristján. „Þessar dylgjur hans um flutningskostnað er ekkert annað en ómerkilegur málflutningur. Útreikningar á þessum flutningskostnaði hjá hvítflibbabetlurunum í samtökunum, sem varaþingmaðurinn vísar til, eru ekki í nokkru samhengi við raunveruleikann. En það er svo sem ekkert nýtt frá þeim bæ.“