þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Economist: Hræsni Evrópuþingsins í selamálinu

18. maí 2009 kl. 12:00

Breska fréttaritið The Economist sakar Evrópuþingið um ótrúlega hræsni í þeirri afstöðu sinni að banna innflutning á selaafurðum til Evrópusambandsins. Ef Evrópuþingið hefði raunverulegan áhuga á því að koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum ætti þingið frekar að beina sjónum sínum að því hvernig farið væri með búfé í ESB-ríkjunum í þessu tilliti.

Leiðarahöfundur The Economist bendir á að á hverju ári séu um 300.000 selir aflífaðir. ýmist með byssuskoti eða kylfuhöggi á höfuðið. Fyrir fjórum árum hafi umhverfisverndarsamtök World Wide Fund (WWF) beitt sér fyrir því að fengnir voru óháðir dýralæknar til þess að leggja mat á drápsaðferðir á selveiðum. Dýralæknarnir komust að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að aflífun sela með kylfuhöggi væri ekki grimmileg drápsaðferð ef hæfir og þjálfaðir atvinnuveiðimenn væru að verki. Jafnframt kom fram það álit að selveiðum Kanadamanna væru vel stjórnað og að þær færu fram á fagmannlegan hátt. Dýralæknarnir töldu að þær hryllingssögur sem gengju um selveiðarnar væru af tilfinningarlegum toga.

The Economist segir að selir lifi frjálsu og góðu lífi á ísnum við Kanada samanborið við innilokað búfé í ríkjum ESB. Jafnframt búi selurinn þau forréttindi að hann viti ekki af því þegar dauðastundin renni upp, en helmingurinn af því sauðfé sem slátrað sé í Frakklandi sé þess meðvitað þegar það er skorið á háls. Þessi háttur við aflífun er leyfður með tilliti til trúarlegra reglna, en Evrópuþingið hafnaði að gera á því breytingar aðeins tveimur dögum eftir að það samþykkti bannið við innflutningi selaafurða.

Selveiðar eru fyrst og fremst stundaðar skinnanna vegna. The Economist bendir á að framleidd séu meira en 30 milljónir minka- og refaskinna í Evrópu á ári. Á fjögurra til fimm daga fresti séu drepin fleiri dýr skinnanna vegna í Evrópu en sem nemur öllum selveiðum Kanadamanna á heilu ári. Selveiðar eru sagðar ósanngjarnar en á sama tíma er látið tölulaust að álíka varnarlaus villt dýr eins og fuglar, dádýr og villisvín séu drepin.

Leiðarahöfundur The Economist telur það ekki tilviljun að aðgerðarlitlir þingmenn á Evrópuþinginu láti nú undan sífelldum þrýstingi dýraverndarsamtaka í þessu máli. Kosningar til þingsins fari fram eftir nokkrar vikur. Þingmennirnir séu skapa sér vinsældir og bjarga þar með eigin skinni. Við slíkar aðstæður séu útlendir selamorðingar ágætis skotmark.