fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eftir að nýta 9,5% þorskkvótans þegar mánuður er eftir af fiskveiðiárinu

17. ágúst 2009 kl. 16:00

Afli íslenskra skipa í botnfiski var í júlí 36.280 tonn, mestur var aflinn í þorski, þar á eftir í úthafskarfa. Nú þegar mánuður er eftir af fiskveiðiárinu eru 9,5% af því aflamarki sem til ráðstöfunar er í þorski ónýtt, aflmarksskip eiga 8,8% ónýtt og krókaflamarksskip 12,6%, að því er fram kemur í frétt frá Fiskistofu.

Á sama tíma í fyrra var 9,7% af úthlutuðu aflamarki í þroski ónýtt en úthlutað aflamark í þorski var töluvert lægra á síðasta fiskveiðiári en það er nú. Úthlutað aflamark í karfa, löngu, keilu og þykkvalúru voru fullnýtt í júlí og óverulegt magn var eftir af steinbít. Þetta er nokkur breyting á milli fiskveiðiára því á sama tíma í fyrra var eingöngu búið að fullnýta aflaheimildir í steinbít. Eins má merkja mun í veiðum á úthafskarfa en í júlí í ár var landað 7.042 tonnum samanborið við 1.205 tonn í fyrra. Afli úthafskarfa á fiskveiðiárinu er því rúmum 6.000 tonnum meiri en á sama tíma í fyrra og eru aflaheimildirnar nú nánast fullnýttar. Af heildaraflamarki í þorskígildum talið eru í lok júlí 13% af heimildum til ráðstöfunar ónýttar samanborið við 29% á sama tíma í fyrra.

Strandveiðar

Í júní voru strandveiðar heimilaðar á fjórum skilgreindum veiðisvæðum í kringum landið. Hvert landssvæði fékk til ráðstöfunar þorskaflaviðmiðun eftir mánuðum. Strandveiðibátar veiddu alls 1.603 tonn af þorski í júlí sem er tæplega 74% af heildarþorskaflaviðmiði júlí mánaðar fyrir strandveiðibáta. Eingöngu eitt veiðisvæði, svæði A, fullnýtti þorskaflaviðmiðun sína. Nánari upplýsingar um afla eftir tegundum og veiðisvæðum má finna á vef Fiskistofu.

Uppsjávartegundir

Afli í uppsjávartegundum var 122.579 tonn í júlí. Aflaheimildir uppsjávartegunda miðast við almanaksár. Uppistaða aflans í júlí er norsk íslensk síld og makríll. Ekki er um að ræða úthlutaðar aflaheimildir í makríl en veiðiviðmið skv. reglugerð er 112.000 tonn á árinu 2009, í lok júlí hafði verið veitt 92,7% þess viðmiðs. Um 50% af aflaheimildum til ráðstöfunar í norsk íslenskri síld eru ónýttar þegar fimm mánuðir eru eftir af árinu. Þess ber þó að geta að hluti þeirra eru heimildir íslenskra skipa til veiða í norskri lögsögu.

Afli utan aflamarks

Nokkur aukning er í afla utan aflamarks á milli fiskveiðiára og er það að mestu tilkomið með heimildum til strandveiða. Jafnframt hefur orðið 32% aukning á svo kölluðum VS – afla á fiskveiðiárinu samanborið við fiskveiðiárið 2007/2008, aukninguna er helst að merkja í þorski. Undirmálsafli utan aflamarks á tímabilinu september til júlí er minni í ár en í fyrra, 40% minna af ýsu er landað sem undirmáli það sem af er árs samanborið við síðasta fiskveiðiár.