sunnudagur, 20. ágúst 2017
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á einum degi drápust 250 tonn af laxi

13. ágúst 2017 kl. 11:00

Fjórðungur ársframleiðslunnar tapaðist í danskri laxeldisverksmiðju

Danska laxeldisfyrirtækið Langsand Laks varð fyrir miklu tjóni í lok júní þegar 250 tonn af laxi drápust á einum degi. Þetta er fjórðungur ársframleiðslu fyrirtækisins, en Langsand Laks stundar sitt laxeldi á landi en ekki í sjókvíum.

Engar skýringar fundust í fljótu bragði á þessum stórfellda laxadauða, en samkvæmt frásögn fréttasíðunnar IntraFish telja forsvarsmenn fyrirtækisins ólíklegt að sjúkdómar í fisknum hafi valdið þessu tjóni. Þá telja þeir sig geta útilokað tæknileg mistök. Líklegra sé að einhver mengun hafi komist í kvíarnar.

Þetta gerðist 30. júní en það var norska fréttasíðan ilaks.no sem fyrst skýrði frá.

Langsand Laks er með starfsemi sína í bænum Hvide Sande á vesturströnd Jótlands. Fyrirtækið var nýbúið að tilkynna um tap sem orðið hafði á starfseminni á síðasta ári, en samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er það frumkvöðull í laxeldi í landkvíum.

Langsand Laks er síðan í eigu danska fyrirtækisins Atlantic Sapphire, sem einnig hefur áform um að stunda landeldi á laxi bæði í Bandaríkjunum og Asíu.

gudsteinn@fiskifrettir.is