föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki fundist nægileg loðna til að gefa út kvóta

9. janúar 2009 kl. 14:52

- áfram verður leitað á næstu vikum

Í nótt lauk mælingu á loðnustofninum þar sem þrjú veiðiskip voru notuð til mælinga. Bráðabirgðaútreikningar sýna að alls mældust 293 þúsund tonn af loðnu, þar af um 270 þúsund tonn af þriggja og fjögurra ára loðnu. Er það mjög svipað magn og mældist í leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar í nóvember-desember á síðasta ári.

Aflaregla við loðnuveiðar byggir á að skilja 400 þúsund tonn eftir til hrygningar. Ljóst er að ofangreindar mælingar eru undir því magni og því ljóst að Hafrannsóknastofnunin leggur til að loðnuveiðar verði ekki hafnar að svo stöddu, segir í frétt frá stofnuninni.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er áfram við mælingar á loðnustofninum og mun líklega ljúka annarri yfirferð yfir rannsóknasvæðið á sunnudagskvöld. Að því loknu mun rannsóknaskipið verða við framhaldsathuganir og loðnuleit á næstu vikum.

Auk rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar tóku veiðiskipin Börkur NK, Lundey NS og Faxi RE þátt í leitinni. Öll höfðu skipin mælitæki sem eru sambærileg við þau tæki sem eru um borð í rannsóknaskipum og því hægt reikna út magn loðnu byggt á þeim gögnum.

Leiðarlínur þeirra ásamt leiðarlínum rannsóknaskipsins og dreifingu loðnunnar sem mældist í leiðangrinum má sjá á þessum tveimur myndum HÉR.