föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki grundvöllur fyrir meiri loðnukvóta enn sem komið er

11. mars 2008 kl. 09:45

Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnuninni segir eðlilegt að loðnuskipstjórum finnist vera svipað eða meira loðnumagn á ferðinni núna og í fyrra, en það þýði þó ekki að grundvöllur sé fyrir því að leyfa jafnmiklar veiðar og þá. Á síðustu vertíð nam loðnuaflinn liðlega 300 þúsund tonnum sem er tvöfalt meira en útgefinn loðnukvóti á þessari vertíð. Lárus Grímsson skipstjóri á Lundey NS fullyrti í Fiskifréttum í síðustu viku að síst minna af loðnu hefði sést á veiðisvæðinu nú en í fyrra og því hefði að ósekju mátt gefa út jafnmikinn kvóta og þá.

Þessar fullyrðingar voru bornar undir Þorstein Sigurðsson sviðsstjóra nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunarinnar. ,,Ég skil vel að mönnum finnist svipað loðnumagn nú og í fyrra á veiðisvæðinu hér sunnan- og vestanlands. Sá er hins vegar munurinn, að bæði í fyrra og á árunum þar á undan gekk aðeins hluti loðnustofnsins vestur með Suðurlandi til hrygningar en hinn hlutinn gekk austur í haf. Núna virðist loðnan nánast öll hafa skilað sér vestur á bóginn. Við þurfum að gera ráð fyrir að 400 þúsund tonn verði eftir í sjónum til hrygningar og það dregst frá því magni sem mælt er. Það kemur því nær allt til frádráttar þeirri loðnu sem sést hefur sunnan- og suðvestanlands á síðustu vikum,“ sagði Þorsteinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.