þriðjudagur, 25. september 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki mögulegt án aðkomu ríkisvaldsins

Svavar Hávarðsson
9. október 2017 kl. 11:53

Togarar og minni fiskiskip tengjast landrafmagni í landlegum, en stærri skip eru mörg hver svo þurftafrek að háspennutengingu þarf til - sem hvergi er að finna í íslenskum höfnum. Mynd/HAG

Kostnaður við háspennutengingar 6-7 stærstu hafna landsins verður aldrei lægri en 10 milljarðar króna

Íslenskar hafnir geta ekki landtengt skip sem þurfa meira en eitt megavatt í aflþörf á þeim tíma sem landlega varir. Ljóst er að uppsetning háspennutenginga er langtímaverkefni – og málinu verður ekki hreyft nema með myndarlegri aðkomu ríkisvaldsins enda um margra milljarða uppbyggingu að ræða.

Háspennutengingar verða ekki settar upp nema á nokkrum stærstu höfnum landsins. Gróft metið má ætla að kostnaður Faxaflóahafna gæti orðið um fjórir milljarðar króna til að koma upp 4-5 slíkum stöðvum, en fullnægjandi kostnaðarmat fyrir slíkri aðgerð liggur ekki fyrir. Því síður kostnaðarmat á þeim aðgerðum sem veitustofnanir þurfa að gangast fyrir við að leggja strengi að höfnunum sem þjónustu háspennustöðvarnar.

Þessum tölum um tilkostnað má finna stað í skýrslu Darra Eyþórssonar, umhverfisverkfræðings, sem kannaði fyrir Faxaflóahafnir, Orkuveitu Reykjavíkur, Veitur ohf., og Reykjavíkurborg hvernig landið liggur varðandi þetta stórverkefni. Skýrsla hans lá fyrir í fyrrasumar.

Þar segir: „Mestum umhverfislegum ávinningi má ná með því að auka notkun landrafmagns um borð í skipum við höfn. Nýta skipin sér þá innlenda raforku sem framleidd er á umhverfisvænan og endurnýjanlegan máta, í stað þess að brenna skipaolíu í ljósavélum sínum. Nú þegar nýta innlend fiskiskip og togarar sér þessa þjónustu, en rafdreifikerfi hafnanna var hannað með það í huga að þjónusta þessi skip. Til að auka megi sölu á raforku til annarra og orkufrekari skipa sem hafnirnar sækja þarf að endurhanna og uppfæra núverandi dreifikerfi.“

6-7 hafnir
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir í skriflegu svari til Fiskifrétta að fyrirtækið vinni nú að endurhönnun lágspennukerfis, og reiknað sé með allt að hálfum milljarði verði varið til þess verkefnis á næstu árum. Þegar hefur kerfið verið endurnýjað að hluta í Gömlu höfninni í Reykjavík og á Akranesi og unnið er að því að endurnýja kerfið á Norðurgarði.

„Ef við horfum til annarra hafna þá má reikna með að raunhæft sé að setja upp háspennutengingar á Ísafirði, í Hafnarfirði, á Akureyri og Seyðisfirði, Fjarðabyggð (Mjóeyri) og í Vestmannaeyjum, og hugsanlega Þorlákshöfn.  Þar má áætla að þyrfti að minnsta kosti tvær tengingar á hvern stað - sem þýðir 10 til 12 tengingar til viðbótar við þær sem settar yrðu upp hjá Faxaflóahöfnum,“ segir Gísli.

Sé horft til skýrslu Darra Eyþórssonar gæti kostnaður í háspennutengingum þessara 6-7 hafna verið um um tíu milljarðar króna, en þá er ótalið hvaða styrkingar þarf að gera á flutningsneti til bæjanna og lagningu strengja niður á hafnarsvæðin. Lauslega áætlaður kostnaður vegna endurbóta á dreifikerfi Orkuveitunnar til að auka sölu landrafmagns vegna Faxaflóahafna var 1,2 til 1,5 milljarður króna, samkvæmt skýrslu Darra og var þar byggt á mati Veitna ohf.

Þá er heldur ekki tekið tillit til kostnaðar um borð í skipunum svo taka megi við landrafmagni. Ný skip verða að vonum smíðuð með samræmdum tengibúnaði - en það er þróun til einhvers tíma. Leggja þarf í kostnað við að búa eldri skip nauðsynlegum búnaði.

Gísli segir að Faxaflóahafnir muni á næstunni láta skoða landtengingu skipa með sértækum hætti og þá verði hægt að sjá hver kostnaðurinn er líklegur til að verða og hvaða tekjur falla þá til á móti.

Í því samhengi segir Gísli að „erlendis eru það ríki, sjóðir og héruð sem leggja höfnum til verulegan hluta stofnkostnaðar - þar sem þetta hefur verið sett upp - en hafnir eru fáar í Evrópu sem hafa svona búnað - en í Bandaríkjunum og Kanada hafa nokkrar hafnir fjárfest í háspennutengingum með öflugum stuðningi frá borgaryfirvöldum,“ segir Gísli og nefnir Los Angeles, Montreal og Vancouver.

Afdráttarlaus niðurstaða
„Hagnaður af sölu rafmagns mun ekki einn og sér geta staðið undir svo umsvifamiklum innviðafjárfestingum, miðað við núverandi skipakomur og núverandi gjaldskrá raforku,“ segir Darri í greiningu sinni. Ennfremur segir hann að „þó svo að orka í gegnum landtengingar sé umtalsvert ódýrari fyrir útgerðir en notkun ljósavéla, bendir næmnigreining sem gerð var í verkefninu til þess að hækkun verðskrár raforku myndi ekki gera það að verkum að aðgerðirnar standi fjárhagslega undir sér. Til að auknar landtengingar skipa í höfn verði að veruleika er því ljóst að til þarf að koma stuðningur frá stjórnvöldum.“

Þetta er afdráttarlaus niðurstaða þó sá sem hér heldur á penna hafi ekki séð þess stað í stefnumótun stjórnvalda að landtengingar hafna á Íslandi séu á dagskránni, enda hafnir sveltar af fé þegar kemur að nauðsynlegum umbótum, og Fiskifréttir hafa fjallað um. Síðast um hafnarbætur á Höfn í Hornafirði sem eru aðkallandi, vægast sagt.

Þarf samstarf
Í nýju minnisblaði Gísla Gíslasonar hafnarstjóra, sem lagt var fram á fundi stjórnar 18. september, segir frá stöðu mála. Verkefnið lítur að aðgerðum til að verjast hlýnun jarðar og þ.m.t. hlýnun og súrnun sjávar – þetta kalli á víðtækt samráð enda sé hafnarstarfsemin sjálf ekki megin mengunarvaldur heldur starfsemi viðskiptavina hafnanna. Það sé því ljóst að árangur verður takmarkaður nema til komi samstarf og samræmt átak.

„Til þess að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð er ljóst að hrinda þarf margþættum aðgerðum í framkvæmd, þar með talið á Íslandi. Sá þáttur loftslagsmála sem blasir við höfnum er að grípa til aðgerða sem draga úr losun koltvísýrings og að stuðla að notkun á eldsneyti sem mengar minna en svartolía.“

Hvers hlutverk?
Það er þó ekki ljóst hvort það sé yfir höfuð skylda hafnanna sjálfra – eða sveitarfélaganna -  að ráðast í kostnaðarsama uppbyggingu við landtengingar hafna, en núgildandi lagaumhverfi gerir ráð fyrir því að leyfi Orkustofnunar þurfi til reksturs dreifikerfis á tilteknu svæði. Í leyfinu felst einkaréttur og skylda til dreifingar.

Faxaflóahafnir hafa þegar hafið athugun á stöðu sinni vegna þessa og í svari Orkustofnunar til Faxaflóahafna segir „að samkvæmt raforkulögum er dreifing rafmagns á ákveðnum svæðum bundin við sérleyfi dreifiveitna. Í framkvæmd þýðir þetta að dreifiveitur sem hafa sérleyfi hafa einkarétt og skyldu til til þess að dreifa rafmagni á afmörkuðum dreifiveitusvæðum. Óheimilt er fyrir aðra aðila að dreifa rafmagni á þeim svæðum. Veitur ohf. hafa einkarétt til þess að reka dreifikerfi fyrir raforku í Reykjavík.“

Í ljósi þessa svars ályktar Gísli að kanna verði stöðu hafnarinnar með tilliti til þessa lagaákvæðis og taka upp viðræður við þá sem þurfa að koma að málum, en ljóst sé að rekstur háspennukerfis kalli á sérhæfða þekkingu.