miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki ráðlegt að auka þorskkvóta strax

15. janúar 2009 kl. 11:51

,,Ástandið í hafinu er gott. Þorskur ætti því að geymast vel. Ég tel því sterk rög hníga til þess að auka ekki kvótann þegar í stað, heldur bíða til næsta fiskveiðiárs,” segir Hermann Stefánsson framleiðslustjóri Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði í grein sem hann ritar í Fiskifréttir í dag.

Síðustu vikur og mánuði hefur verið þrýst á sjávarútvegsráðherra úr mörgum áttum um að auka þorskkvótann þegar í stað til þess að létta mönnum róðurinn í efnahagskreppunni og hefur nú síðast verið vísað í góða útkomu í haustralli Hafrannsóknastofnunarinnar.

Hermann Stefánsson lýsir í grein sinni efasemdum um að þetta sé rétti tíminn til þess. Hann bendir á að markaðir fyrir þorskafurðir séu mjög erfiðir þessa dagana, birgðasöfnun hjá framleiðendum hafi aukist, kaupendur haldi að sér höndum og kaupgeta neytenda erlendis hafi minnkað. Ekki væri augljóst að aukinn þorskkvóti yrði ávísum á aukinn gjaldeyri.

,,Það má því leiða að því líkur að aukinn þorskkvóti við þessar aðstæður yrði annað hvort til að auka birgðir framleiðanda eða lækka verð enn frekar – nema hvoru tveggja verði. Það gæti því verið skynsamlegt að bíða með aukningu á þorskkvóta á meðan markaðir jafna sig,” segir Hermann Stefánsson.

Grein Hermanns er birt í heild í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.