miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eldi á ófrjóum laxi hefst næsta sumar

Guðjón Guðmundsson
26. desember 2018 kl. 06:00

Tómas Árnason sjávarútvegsfræðingur og Agnar Steinarsson líffræðingur á Tilraunastöðinni á Stað í Grindavík. MYND/GUGU

Stofnfiskur framleiðir hrognin í stórum stíl


Eldi á geldlaxi er rannsóknaverkefni sem unnið er að í Tilraunastöðinni á Stað í samstarfi við Stofnfisk, Háskólann á Hólum, Fiskeldi Austfjarða og Stjörnu-Odda. Ófrjó laxaseiði, þrílitna, verða alin upp í sláturstærð samhliða eldi á frjóum laxi og rannsóknir gerðar á ýmsum líffræðilegum eiginleikum. Önnur stór tilraun hefst síðan næsta sumar þegar Fiskeldi Austfjarða setur 100.000 þrílitna laxaseiði í sjókví í Fáskrúðsfirði. Seiðin eru nú alin í eldisstöð Rifóss í Kelduhverfi og hefur árangurinn verið vonum framar fram að þessu, og raunar svo góður að fyrirtækið er nú búið að leggja inn pöntun fyrir öðru eins magni til útsetningar ári síðar.

Agnar Steinarsson, líffræðingur hjá Tilraunastöðinni, segir að þrílitnun sé ein af fleiri aðferðum til þess að framleiða ófrjóan fisk. Þetta fer þannig fram að hrognin eru beitt þrýstingi í skamman tíma stuttu eftir frjóvgun með þeim afleiðingum að seiðin verða þrílitna og ófrjó.

Tæpt ár er síðan hrognin sem nú eru um þriggja gramma seiði í kerjunum á Stað voru framleidd af Stofnfiski. Fyrirtækið framleiðir þessi hrogn núna í stórum stíl. Í apríl á þessu ári samdi Stofnfiskur til að mynda við laxeldisfyrirtækið Grieg í Kanada um sölu á yfir 22 milljónum af þrílitna hrognum til Nýfundnalands með fyrstu afhendingum á næsta ári.  Stofnfiskur hefur einnig selt þrílitna hrogn til Noregs.

Fyrsta skipti eldi á geldlaxi

„Almennt séð hefur verið ójafnari árangur með eldi á þrílitna laxi. Það sést ekki mikill útlitsmunur en eldi á þrílitna laxi kallar á aðrar áherslur í eldinu. Það þarf til að mynda meira fosfór í fóðrið til að styrkja beinin. Þá er hann viðkvæmur fyrir háu hitastigi og gæti því hentað vel á Íslandi og Kanada. Fiskeldi Austfjarða fékk stóran skammt af hrognum sem nú eru orðin að um það bil þriggja gramma seiðum. Samhliða er fyrirtækið að ala upp tvílitna lax til samanburðar. Árangurinn fram að þessu hefur verið framúrskarandi góður og ekki er hægt að sjá neinn áberandi mun á vexti, útliti eða frammistöðu tvílitna og þrílitna seiða. Stefnt er að því næsta sumar að setja fiskinn í kvíar í Fáskrúðsfirði. Þar með hefst í fyrsta sinn á Íslandi tilraun með eldi á geldfiski á stórum skala,“ segir Agnar.

Nauðsynlegar rannsóknir

Í Háskólanum á Hólum er einnig í gangi rannsókn á þrílitna laxi. Þar snýst hún m.a. um áhrif mismunandi súrefnismettunar, kolsýrumettunar og ýmissa annarra umhverfisþátta. Í Tilraunastöðinni á Stað er síðan ráðgert næsta vor að setja af stað vaxtartilraun á tvílitna og þrílitna fiski við fjögur mismunandi hitastig, frá 2 upp í 17 gráður. Mælingarnar verða svo endurteknar þegar fiskurinn hefur stækkað. Verkefnið er til þriggja ára.

Agnar segir að stærsta rannsóknin sé þó sjókvíaeldi Fiskeldis Austfjarða. Á Fáskrúðsfirði verða settir 100.000 þrílitna fiskar í eina kví og jafnmargir tvílitna í aðra kví í samanburðareldi. Slátrun á þessum fiski fer fram á árunum 2020 og 2021. Fyrirtækið er síðan búið að leggja inn pöntun fyrir öðrum eins skammti af þrílitna hrognum og stefnir aftur á útsetningu þrílitna seiða á árinu 2020.

„Við getum ekki slegið því föstu að þetta verði bjargvættur sjókvíaeldisins en þetta eru nauðsynlegar rannsóknir. Árangurinn hefur verið mjög góður fram að þessu og svo virðist sem Stofnfiskur sé búinn að ná mjög góðum tökum á geldingartækninni. Mikilvægasta tilraunin er hins vegar eldi í iðnaðarskala í sjókvíum. Margt annað getur líka spilað inn í heildarmyndina eins og til dæmis vottanir. Þrílitna fiskur flokkast ekki sem erfðabreyttur fiskur en sum vottunarfyrirtæki gætu sett þrílitnun fyrir sig. En þá má benda á að stór hluti regnbogasilungs úr eldi er þrílitna,“ segir Agnar.