miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eldisbann samþykkt í Washington

Guðsteinn Bjarnason
9. mars 2018 kl. 16:00

Sjókví Cooke Aquaculture við Cypress-eyju skammt frá Seattle í Washington.

Hart var tekið á slysasleppingu á ríkisþinginu í Seattle þegar bann við eldi á atlantshafslaxi í sjókvíum var samþykkt.

Í ágúst á síðastliðnu ári sluppu að minnsta kosti 160 þúsund, og hugsanlega allt að 263 þúsund laxar úr sjókvíum fyrirtækisins skammt út af Seattle.

Stjórnvöld létu rannsaka þetta atvik og gefin var út skýrsla þar sem fullyrt er að viðhald á kvínni hafi verið ábótavant, hún hafi verið í slæmu ástandi. Á net hennar hafi safnast skeljar og sjávargróður í miklu magni þannig að ekkert hafi sést í netin.

Fram kemur að tvær af þremur vélum sem fyrirtækið hefur notað til að hreinsa netin hafi verið bilaðar og ekki í notkun þegar slysasleppingin mikla varð.

„Netin þarf að þrífa betur á sumrin,“ segir í skýrslunni samkvæmt frásögn í Seattle Times. „Bilaðar nethreinsivélar höfðu áhrif á hreinsunaráætlunina.“

Störf tapast
Fyrirtækið sagði reyndar rannsókninni hafa verið ábótavant að ýmsu leyti. Staðreyndavillur sé að finna í henni og ályktanir dregnar af röngum fullyrðingum standist því ekki.

Þingið í Washington-ríki samþykkti engu að síður síðastliðinn föstudag með 31 atkvæði gegn 16, og stuðningi þvert á flokka, að banna eldi atlantshafslax í sjókvíum. Sjö ára aðlögunartími er gefinn, en árið 2025 verður allt eldi á atlantshafslaxi úr sögunni. Engin ný leyfi verða gefin.

Joel Richardson, aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, leggur áherslu á að meira en sex hundruð störf kunni að tapast vegna lagasetningarinnar. Svæðið verði einnig af frekari fjárfestingum sem fyrirtækið hafði áformað að leggja út í til að efla starfsemina.

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu sagðist Richardson vera afskaplega vonsvikinn með að þetta varð niðurstaðan.

„Þingmenn í Washington ættu að taka upp hanskann fyrir hundruð fjölskyldna í sjávarbyggðum sem byggja lífsafkomu sína á þessari starfsgrein,“ sagði Richardson.

Hagsmunasamtök laxeldisfyrirtækja í Washington, WGFA, hafa reyndar skorað á Jay Inslee, ríkisstjóra í Washington, að beita neitunarvaldi sínu og skrifa ekki undir lögin sem þing ríkisins hefur samþykkt. Þessi samtök taka undir með fyrirtækinu um að rannsókn hins opinbera á slysasleppingunni sé ekki reist á nægilega góðum vísindagrunni. Lögin séu þar af leiðandi vanhugsuð.

Starfsemi í sex löndum
Cooke er eitt stærsta laxeldisfyrirtæki heims, og hið stærsta utan Noregs, með starfsemi í sex löndum og um sex þúsund manns á launaskrá. Auk Bandaríkjanna og Kanada er fyrirtækið með eldisstöðvar í Chile og Úrúgvæ, Skotlandi og á Spáni. Tekjurnar námu 2,5 milljörðum dala á síðasta ári, en sú fjárhæð jafngildir rúmlega 250 milljörðum króna.

Fyrirtækið þarf að greiða sekt fyrir 332 þúsund dali, eða ríflega 33 milljónir króna. Hætta er talin á því að laxarnir, sem sluppu úr kvíum fyrirtækisins, geti skaðað staðbundna laxastofna. Rétt eins og víðast hvar annars staðar þar sem laxeldi er stundað, þar á meðal hér á landi, er eldislax fyrirtækisins Atlantshafslax.

Slysasleppingin varð úr sjókví fyrirtækisins við Cypress-eyju í Salish-hafi, sem er innhaf úr Kyrrahafinu. Bæði Bandaríkin og Kanada eiga land að Salish-hafi og við strendur þess eru bæði kanadíska borgin Vancouver og bandaríska borgin Seattle.

Samkvæmt rannsóknarskýrslu hins opinbera voru 305 þúsund laxar í sjókvíunum sem skemmdust þann 19. ágúst. Nokkrum vikum áður höfðu orðið skemmdir á festingum kvíanna á sama stað.

Eftir að eldislaxarnir sluppu úr kvínni urðu hörð viðbrögð bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Enn sem komið er hafa kanadísk stjórnvöld ekki brugðist við með því að herða reglur um laxeldi í sjó, en kallað hefur verið eftir slíku þar í landi.

„Alls staðar þar sem farið hefur verið af stað með opið kvíaeldi við austurströnd Norður-Ameríku hafa villtu laxastofnarnir hrunið,“ er haft eftir Neville Crabbe í kanadíska dagblaðinu Globe and Mail.

Crabbe er fulltrúi bandarísk-kanadískra samtaka um vernd Atlantshafslaxins, Atlantic Salmon Federation.

Hann segir greinilegt Cooke Aquaculture hafi gengið of langt í að reyna á þolmörk tegundarinnar, og það muni líka bitna á fyrirtækjum í Kanada.