föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engin meiri loðna hefur fundist

12. febrúar 2009 kl. 12:24

,,Það hefur ekki fundist neitt af loðnu umfram það sem búið var að mæla áður. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er að skoða ástandið í fjörunum sunnan við landið, Lundey er að ljúka við að leita djúpkantinn hérna vestur með Suðurlandinu, Aðalsteinn Jónsson var að koma inn eftir leit fyrir austan land og Súlan er enn að leita á grunnslóð fyrir austan.”

Þetta sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir um hádegisbilið í dag. Þessu til viðbótar má nefna að Kap var í veiði úti fyrir Suðurlandi í gær og er verið að vinna afla hennar í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum.

Að sögn Þorsteins er fremsti hluti loðnugöngunnar nú við Portlandið. Seinni hluti göngunnar, sem mældist úti fyrir norðanverðum Austfjörðum í janúar, á eftir að skila sér vestur með Suðurlandi. Engin viðbót hefur látið á sér kræla að þessu sinni, en í fyrra kom stór loðnutorfa óvænt og skyndilega upp að Suðurlandinu og bjargaði vertíðinni þá eins og kunnugt er. Fiskifræðingar hafa enn enga skýringu á því hvaða hún kom.

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson leitaði loðnu vestan við landið fyrir nokkrum dögum en varð einskis vís.