mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engin vandræði við sölu á mjöli frá Íslandi

5. ágúst 2009 kl. 12:24

,,Það hafa ekki verið nein vandræði við að afsetja mjöl í sumar og engin birgðasöfnun. Veiðar okkar á makríl eru bæði löglegar og undir stjórn þannig að það er rangt að tala um óheftar veiðar,” sagði Jóhann Pétur Andersen framkvæmdastjóri Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda í samtali við Fiskifréttir.

Á sjávarútvegsvefnum Intrafish í gær var haft eftir gæðastjóra norska fóðurrisans EWOS að fyrirtækið ætlaði að hætta að kaupa afurðir frá Íslandi þar sem það telji veiðar Íslendinga á makríl stjórnlausar. Hann sagði að EWOS hefði ekki sett Ísland á svartan lista en bætti því við að hráefni sem fyrirtækið notaði yrði að koma úr veiðum sem væri stjórnað.

Í dag birtist síðan leiðrétting á Intrafish-vefnum þar sem kvað við nokkuð annan tón. Nú segir annar talsmaður EWOS að fyrirtækið hafi hætt að kaupa makrílmjöl frá Íslandi tímabundið vegna þess að gæði og ferskleiki hráefnisins yfir sumarmánuðina sé ekki  viðunandi fyrir laxafóður.

,,Rétt er að við kaupum ekki fiskafurðir úr veiðum sem taldar eru ósjálfbærar. Staðan varðandi makrílveiðar Íslendinga er hins vegar sú, að okkar dómi, að um sé að ræða pólitíska kvótaumræðu sem ekki hafi verið til lykta leidd fremur en deilu um það hvort veiðarnar séu sjálfbærar,” segir Einar Wathne aðstoðarframkvæmdastjóri EWOS.

Jóhann Pétur Andersen kvaðst hafa talað við tvo íslenska mjölsala í morgun og þeir könnuðust ekki við kvartanir um að gæðum mjöls frá Íslandi væri ábótavant. ,,Mjölsalan hefur gengið mjög vel. Í júnílok voru 12.000 tonnum minni mjölbirgðir í landinu en á sama tíma í fyrra og 33.000 tonnum minni en í hittifyrra. Það er engin birgðasöfnun í mjöli og samningar fyrirliggjandi á bak við allt það mjöl sem er í landinu,” sagði Jóhann Pétur.

Hann bætti því við að það væri sameiginlegt áhugamál allra sem að makrílveiðunum kæmu hérlendis að ná einhverri lendingu í þessu deilumáli og að Íslendingar fengju sinn réttmæta hlut af kvótanum. Þá má nefna að fóðurrisarnir Skretting og EWOS hafa hvatt til þess í yfirlýsingu að deilan verði leyst eins fljótt og kostur er.