þriðjudagur, 16. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enginn friður fyrir brælum

18. janúar 2018 kl. 16:51

Höfrungur III AK

Ýsu sjáum við ekki í svona veðri, segir Friðrik Ingason, skipstjóri á Höfrungi III.

„Veiðin hefur verið í daprari kantinum og það skrifast að stóru leyti á stöðuga ótíð að undanförnu. Það er bræla alla daga og dúrar ekki einu sinni á milli,“ segir Friðrik Ingason skipstjóri í viðtali við heimasíðu HB Granda. Þá var Friðrik með frystitogarann Höfrung III AK að veiðum í Víkuráln.

Að sögn Friðriks hófst veiðiferðin 2. janúar.

Hann segir jafnframt í viðtalinu: „Við byrjuðum veiðar á Hampiðjutorginu en þar var lítið að hafa. Þá fórum við suður til að reyna við rauða karfann, þ.e.a.s. djúpkarfann, og þræddum hrygginn djúpt suður af landinu. Það skilaði ekki nægilega góðum árangri og síðan höfum við verið í og við Víkurálinn í vitlausu veðri flesta daga. Þegar við fórum suður til að reyna við djúpkarfann var góð veiði á Halanum og þar austur af en hún datt svo niður.“

Friðrik segir að aðallega sé leitast við að veiða gullkarfa, ufsa og ýsu í bland við þorskinn.

„Það væri örugglega hægt að gera hér góða þorskveiði ef aflaheimildir leyfðu. Karfaveiði er hins vegar frekar slök og hið sama má segja um ufsann. Ýsu sjáum við ekki í svona veðri,“ segir Friðrik.

Von er á Höfrungi III til hafnar í Reykjavík um helgina til millilöndunar og olíutöku. Eftir það verðar farið út strax aftur en veiðiferðinni á að ljúka um mánaðarmótin.