miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn meiri breytingar á næstu árum

Guðjón Guðmundsson
30. desember 2018 kl. 06:00

Svavar Svavarsson, fyrrum yfirmaður viðskiptaþróunar og fyrrum markaðs- og framleiðslustjóri HB Granda. MYND/HAG

Svavar Svavarsson hjá HB Granda lítur yfir farinn veg. Hann á að baki um 43 ára farsælan starfsferil hjá fyrirtækjum sem urðu hluti af HB Granda samstæðunni og frá árinu 2005 hefur hann stýrt markaðsmálum og viðskiptaþróun hjá HB Granda.

Þótt íslenskur sjávarútvegur standi að mörgu leyti mjög framarlega í alþjóðlegum samanburði hvað varðar veiðar og vinnslu á hann enn mikið inni til frekari framþróunar með stafrænni tækni og fjórðu iðnbyltingunni. Þetta er mat Svavars Svavarssonar, fyrrum  yfirmanns  viðskiptaþróunar og fyrrum markaðsstjóra og framleiðslustjóra HB Granda. Svavar, sem varð sjötugur í ágúst síðastliðnum, lætur af störfum á þessum ári. Hann á að baki um 43 ára farsælan starfsferil hjá fyrirtækjum sem urðu hluti af HB Granda samstæðunni og frá árinu 2005 hefur hann stýrt markaðsmálum og viðskiptaþróun hjá HB Granda.

Svavar er fæddur í Kleppsholtinu í Reykjavík 25. ágúst 1948, renndi sér á skíðum og skautum í Vatnagörðunum þar sem nú er Sundahöfn og spilaði fótbolta með félögunum á gamla malarvellinum við Sjómannaskólann.

Faðir hans, Svavar Halldórsson, var atvinnubílstjóri og seinna sölustjóri hjá heildverslun Garðars Gíslasonar hf. Hann vann ávalt tvöfalda vinnu eins og tíðkaðist í þá daga með því að spila  á trommur í hljómsveitum frá sextán ára aldri og fram yfir sjötugt.

Móðir Svavars, Björg Jónsdóttir vann mestan sinn starfsaldur á skrifstofu Skipaútgerðar ríkisins. Svavar fékk sinn skerf af tónlistargáfu föður síns og spilaði stundum  með pabba sínum í Ingólfskjallaranum og var einnig um tíma í skólahljómsveit Langholtsskóla. Hann tekur gjarnan í gítar á mannamótum. Meðfram barnaskólanum frá 10 ára aldri var Svavar sendill á hjóli hjá Nathan & Olsen og Garðari Gíslasyni hf sem voru umsvifamiklar  heildverslanir  í Reykjavík. Á sumrin var hann „á eyrinni“, vann við uppskipun úr vöruflutningaskipum. Að gagnfræðaprófi loknu réðst hann 16 ára gamall í veðdeild Landsbankans sem hélt utan um húsnæðismálastjórnarlánin, námslánin  og skyldusparnaðinn í landinu. Þetta var árið 1965.

Trilla keypt

„Sparimerkin komu til okkar í bankann frá pósthúsum landsins og við héldum utan um þau. Tekin voru 15% af launum ungs fólk frá 16 ára til 26 ára aldurs og sá hluti launanna var skattfrír sem voru gríðarleg hlunnindi og auk þess var sparnaðurinn  vísitölutryggður auk vaxta sem var einsdæmi  í  þá daga á innlánsreikningum. Við sáum líka um að greiða út lán til námsmanna og innheimta lánin.“

Svavar segir að þessi sjö ár í Landsbankanum hafi verið lærdómsríkur tími og þar kynntist hann mörgu góðu fólki sem kom sér vel þegar  hann hóf eigin útgerð með tveimur félögum sínum. Hann   á Jóhanni Ágústssyni þáverandi bankastjóra Landsbankans mikið að þakka að fá að hætta fyrirvaralaust  í bankanum til að stunda sjóinn um sumarið  gegn loforði um að koma aftur í bankann uppá sama ef  hann yrði afhuga sjómennskunni.  Þeir félagar fengu  myndarlegt lán til kaupa á bátnum hjá Ármanni Friðrikssyni, skipstjóra og fiskverkanda (Manna á Helgu) gegn endurgreiðslu í lönduðum afla.  Sumardaginn fyrsta 1972 var róið í fyrsta sinn,  rakleiðis út á Reykjanesröstina og báturinn fylltur af ufsa.

„Þarna kynntist ég því fyrst hvað veðurfréttir skipta miklu máli. Við vorum auðvitað sífellt að hlusta eftir veðri því við fórum ekki út á tólf tonna trillu án þess að vera vissir um veðrið.“

Trilluna gerðu þeir út tvö sumur en Svavar var kominn með bakteríuna og réð sig á veturna á síldveiðar í Norðursjó á Þorstein RE og á loðnuveiðar veturinn sem gaus í Heimaey. Einnig var hann á þorskanetum en um það leyti hafði Fiskvinnsluskólinn verið starfandi í tvö ár og þar hóf Svavar nám, þá 25 ára gamall.

Moscvich og olía fyrir karfa

„Ég var lang elstur allra nemandanna og þetta var fimm ára nám með fisktæknináminu sem ég tók líka. 1977 útskrifaðist ég frá skólanum sem fisktæknir.“

Tveimur árum áður höfðu Íslendingar fært út fiskveiðilögsögu sína í 200 mílur og bjartsýni var ríkjandi um meiri veiðar og vinnslu í landinu. Svavar segir að í hverju sjávarþorpi hafi verið fiskvinnsla en fiskiðjuverin orðin dálítið lúin. Mikið var líka siglt með aflann. Skuttogaravæðingin var hafin og endurnýjun fiskiðjuvera var líka að hefjast víða um land. Hann vann nokkur sumur í Hraðfrystihúsi Eskifjarðar meðfram náminu í Fiskvinnsluskólanum.

„Það lá fyrir bandaríska þinginu frumvarp sem kvað á um að framleiðendur sem flyttu inn fisk til Bandaríkjanna yrðu að uppfylla ákveðnar hreinlætiskröfur. Það var meðal annars ástæðan fyrir endurnýjun fiskiðjuveranna á Íslandi. Bandaríkjamarkaður var stærsti og mikilvægasti markaðurinn fyrir frystan fisk. Fimm pund og  blokk var uppistaðan í útflutningnum og sjö pund á Rússland. Það voru ávallt gerðir mikilvægir samningar af hálfu stjórnvalda við Ráðstjórnarríkin. Hægt var að framleiða mikið magn af 7 punda pakkningum í pergamentpappír og frysta. Fyrir þetta fékkst  gott verð frá Sovétríkjunum en  fyrir fiskinn fengu Íslendingar  meðal annars Moscvich bíla í trékössum og olíu. Það skiptu aldrei peningar um hendur og sama átti við um viðskiptin við önnur austantjaldsríki. En Rússar voru okkur löngum mikilvægir í þessum viðskiptum og þegar Bretar lokuðu á fiskinnflutning frá Íslandi í þorskastríðinu voru markaðir í Rússlandi okkur opnir,“ segir Svavar.

Framleiðslustjóri hjá BÚR

Á þessum árum voru sölusamtökin mjög mikilvæg og þeir framleiðendur sem Svavar vann hjá, eins og Bæjarútgerð Reykjavíkur og Ísbjörninn, voru innan vébanda Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Hin sölusamtökin voru SÍS en allir framleiðendur voru með mjög svipaða vöru og voru 5 og 7 punda pakkningar og blokkirnar af frystum fiski uppistaðan í útflutningnum. SÍF annaðist sölu á saltfiski og Skreiðarsamlagið á skreið. Þessi sölusamtök höfðu einkaleyfi á útflutningi á fiski með fáeinum undantekningum og framleiðendur áttu sölusamtökin. Það var svo ekki fyrr en um síðustu aldamót að sölusamtökunum var breytt í hlutafélag og eignast þá hvert fyrirtæki innan þeirra sinn hlut.

Svavar bendir á að talsverður uppgangur hafi verið í fisksölu landsmanna á áttunda áratugnum sem helgast meðal annars af útfærslu fiskveiðilögsögunnar. En um svipað leyti kom út „svarta skýrslan“ - skýrsla fiskifræðinga um ofveiði á Íslandsmiðum og farið var að reyna að draga úr veiðunum.

„Ég hafði ráðist til Ísbjarnarins á kvennafrídaginn fræga í október 1975. Ísbjörninn var þá með útgerð og rak fiskiðjuver á Seltjarnarnesi. Tveimur árum seinna, þegar ég lauk námi frá Fiskvinnsluskólanum, var ég ráðinn framleiðslustjóri hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur. Þarna voru 300 manns við fiskvinnslu og mikill uppgangur í veiðinni. Bæjarútgerðin átti fjóra ísfisktogara en fjölgaði þeim í sex með því að láta smíða tvo nýja, Ottó N. Þorláksson og Jón Baldvinsson, sem voru viðbót við Spánartogarana. Vestur á Meistaravöllum voru auk þess um 200 manns við saltfiskverslun og í nágrenni  Korpúlfsstaða voru skreiðarhjallarnir. Á þessum árum voru stundaðar ólympískar veiðar og reynt að afkasta sem mestu í magni. Oft barst mikill afli að landi yfir hátíðar eins og páska og aðra mikilvæga frídaga og var þá unnið og ekkert slegið af. Kvótakerfið var ekki komið og enginn sérstakur hvati til þess að skipuleggja veiðarnar og gera sem mest verðmæti úr aflanum. En þetta var líflegur tími og menn unnu langan vinnudag,“ segir Svavar.

Breytingar með kvótakerfinu

Kvótakerfið er svo samþykkt á Alþingi árið 1983 og átti einungis að vera til eins árs. Það tekur gildi 1984 og því fylgdu miklar breytingar. Þorskkvótinn var ákveðinn 200.000 tonn en flotinn hafði sum ólympísku árin verið að veiða hátt í 400.000 tonn. Sumir áttuðu sig á því að kvótinn væri verðmætur og ætti einungis eftir að aukast að verðmæti. Fyrirtækin fengu ákveðna hlutdeild í heildaraflamarkinu á sín skip miða við sögulega veiðireynslu en stóðu frammi fyrir því að veiða minna en áður og voru þannig með vannýttan skipakost.

„Það voru víða gerðar breytingar mjög fljótt. Í nóvember 1985, einu og hálfu ári eftir að kvótakerfið var sett á, sameinuðust Ísbjörninn og Bæjarútgerð Reykjavíkur í Granda. Skipum og fiskiðjuverum sem höfðu verið í eigu þessara fyrirtækja fækkaði. Hætt var hefðbundinni vinnslu á Grandagarði 8 og starfsfólkið fluttist yfir í vinnsluna í Norðurgarði. Saltfiskverkun á Meistaravöllum og skreiðarverkun við Korpúlfsstaði var hætt. Fiskiðjuveri Ísbjarnarins á Hrólfskálamel var sömuleiðis lokað en sérvinnsla á karfa hófst á Grandagarði 8. Stór hluti af kvótahlutdeild í karfa hafði verið einkennandi fyrir Bæjarútgerðina, Ísbjörninn og Hraðfrystistöðina í Reykjavík enda karfamiðin nálægt höfuðborginni og mjög gjöful. Unnin voru 10.000 tonn af karfa á ári í fiskiðjuverinu við Grandagarð en vinnsla á þorski, ufsa, ýsu og öðrum tegundum fór fram á Norðurgarði. Í ljósi takmarkaðra veiðiheimilda þurfti þó að grípa til uppsagna 1988 og náðu þær til annars hvers starfsmanns í vinnslunni. Það var mikið högg og við sáum að baki mörgum góðum manninum og konunni sem höfðu unnið lengi hjá okkur,“ segir Svavar.

Sérhæfing með fiskmörkuðunum og tilkoma frystiskipa

Önnur stór tímamót urðu 1987 þegar uppboðsmarkaður fyrir ísfisk var í fyrsta sinn opnaður á Íslandi. Fyrirtækin áttu þess nú kost að selja afla sinn á fiskuppboði og kaupa þar aðrar tegundir sem þau kusu fremur að vinna. Í kjölfar þess hófst sérhæfing fiskvinnslunnar í fiskiðjuverinu við  Norðurgarð í vinnslu á þorski, ýsu og ufsa en karfinn var áfram unninn á Grandagarði. Allar aðrar tegundir  seldi  Grandi  á fiskmörkuðum. Þetta voru fyrstu skrefin í fiskmörkuðum á Íslandi og grundvöllur lagður að meiri sérhæfingu og sjálfvirkni vinnslunnar.

„Fiskmarkaðirnir breyttu allri hugsun manna. Það þurfti að standa að ýmsum breytingum innan fyrirtækjanna svo þau gætu verið samkeppnishæf að kaupa til sín hráefni af fiskmörkuðunum. Við nutum líka góðs af því að geta selt fisktegundir sem var ekki eins arðbært fyrir okkur að vinna og fá gott verð fyrir á mörkuðunum. Fiskmarkaðirnir stuðluðu meira að segja að nýliðun í rekstri fiskiðjuvera því fleiri höfðu aðgang að fiski eftir að markaðirnir opnuðu útibú um allt land.“

Það var mikil samkeppni um fisk til vinnslu meðal þeirra fjölmörgu fiskiðjuvera sem voru dreifð um landið.  Upp úr þessu ástandi fór svo frystitogurum ört fjölgandi í landinu og skóp sú þróun ennþá meiri samkeppni um afla og veiðiheimildir.  Það leiddi til þess að HB Grandi hætti  sérvinnslu á karfa  í fiskiðjuverinu við Grandagarð  þar sem nú er Sjóminnjasafnið,  leikjaframleiðandinn CCP og Bryggjan Brugghús. Í staðinn hófum við karfavinnslu að nýju í fiskiðjuverinu við Norðurgarð.

Önnur tímamót sem Svavar minnist á eru fiskveiðistjórnunarlögin sem tóku gildi 1990 og fólu í sér frjálst framsal á kvóta. Hann segir að frjálst framsal kvóta hafi  skipt gríðarlegu máli til að hraða  þeirri hagræðingu sem nauðsynleg  var og nýta þannig betur kosti kvótakerfisins.

Sölusamtökin riða til falls

Það verður líka fljótlega ljóst að áhrif fiskmarkaðanna á sölusamtökin voru mikil. Þau fyrirtæki sem voru aðilar að sölusamtökunum voru skuldbundin að selja alla sína framleiðslu í gegnum sölusamtökin. Með tilkomu fiskmarkaðanna áttu útgerðarmenn  þess kost að selja hluta eða allan  afla sinn á fiskmarkaði þegar þeir gátu  haft meiri hag af því. Auk þess straumlínulagaði það vinnsluna og gerði þá samkeppnisfæra til þess að kaupa  á markaðnum þær tegundir sem hentuðu vinnslunni. Það er ekki bæði haldið og sleppt og þarna byrjaði að grafa undan sölusamtökunum sem voru í eðli sínu framleiðslusamvinnufélög.

„Að mínu mati eru íslensku fiskmarkaðirnir upphafið að falli sölusamtakanna en þá sögu á eftir að skrá. Sölusamtökin líða samt ekki undir lok fyrr en 13 árum síðar eða  upp úr aldamótunum. Þetta voru mjög sterk fyrirtæki og höfðu unnið gríðarlega mikilvægt starf fyrir sjávarútveginn. Þau komu íslenskum sjávarútvegi á kortið út um allan heim og við njótum ennþá góðs af því. Framleiðendur áttu þessi samtök en  voru jafnframt handhafar veiðiheimildanna. Fyrirtækin fóru sjálf að selja sínar vörur og sáu þannig hag sínum betur borgið,“ segir Svavar.

Fiskveiðistjórnunarkerfið drifkrafturinn

Svavar hafði starfað hjá Granda í 25 ár  þegar fyrirtækið kaupir HB á Akranesi af Landsbankanum og til verður HB Grandi sem er með margfalt meiri veiðiheimildir en forverarnir. Um það leyti stofnar HB Grandi eigin markaðsdeild og Svavar var ráðinn markaðsstjóri félagsins í ársbyrjun 2005. Hann segir markaðsstarfið hafa hvílt á þeim grunni sem sölusamtökin sálugu höfðu byggt.

„Kvótakerfið hefur leitt af sér þá hagræðingu sem hefur orðið í sjávarútvegi með samþjöppun veiðiheimilda. HB Grandi og mörg fleiri félög á Íslandi hafa orðið til úr sameiningu margra eldri sjávarútvegsfélaga. Fyrir bragðið verða fyrirtækin öflugri og með meiri viðspyrnu. Þetta er mjög mikilvægt því við erum fyrst og fremst að keppa með okkar fisk á alþjóðlegum matvælamörkuðum þar sem stöðugt eru að koma inn nýjar og hollar vörur á hagstæðu verði. Við erum í alþjóðlegri samkeppni af þessu tagi alla daga. HB Grandi selur sjávarafurðir til 40 landa. Við reynum að selja inn á best borgandi markaðina og framleiða vörur sem eru verðmætari. Við framleiðum meira af ferskum fiski  núna svo dæmi sé tekið. Kvótakerfið hefur líka eflt mjög áhuga fyrirtækjanna að fylgjast með nýrri tækni og innleiða hana til þess að standa sig betur í samkeppninni. Það hafa verið framfarir í fiskleitartækjum, veiðarfærum og algjör bylting hefur orðið í fiskvinnsluvélum og hugbúnaði. Stafræn tækni hefur haldið innreið sína og hún á eftir að umbylta greininni enn frekar á næstu árum. Drifkrafturinn að samstarfi okkar með fyrirtækjum sem eru að þróa allar þessar lausnir, eins og Hampiðjunni, Völku, Skaganum 3X og Marel, er fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er verðmæti fólgið í kvótanum og ekkert annað í boði en að gera sem allra mest úr honum. Þannig hefur kvótakerfið líka leitt til meiri fullvinnslu og skapað þrýsting á fyrirtækin  að framleiða sem mest verðmæti með sem lægstum tilkostnaði. Skipulag veiðanna skiptir líka gríðarlega miklu máli í þessu efni og almenn nýting framleiðslutækjanna. Kvótakerfið hefur leitt til þess að við stöndum mjög vel í alþjóðlegri samkeppni með okkar fisk,“ segir Svavar.

Engin stillimynd

HB Grandi hefur nýtt þennan drifkraft. Fyrirtækið hefur endurnýjað fiskiskipaflotann svo tekið er eftir um víða veröld.  Nýjastu tækni er að finna í fiskiðjuverunum og fyrirtækið er með öflugt markaðs- og sölustarf sem nær til 40 landa. En er þá fyrirtækið komið að leiðarenda í innri þróun?
„Nei, nei þvert á móti. Þetta er ekki stillimynd. Ég hef orðið vitni að gífurlegum breytingum síðustu 30 árin en ég held að breytingarnar verði enn meiri á næstu tíu árum. Ég held það verði enn meiri framþróun í stafrænni tækni og fjórða iðnbyltingin eigi eftir að hafa mikil áhrif á veiðarnar, vinnsluna og markaðssetninguna. Við sjáum vísbendingar um það hvernig stafræn tækni nýtist okkur. Dæmi um þetta er til dæmis sjálfvirku skurðarvélarnar sem taka mynd af flakinu og skera það hárnákvæmt með vatnsgeysla. Það má líka nefna  samskiptin við skipin sem eru gjörólík því sem var áður. Trackwell upplýsingakerfið tryggir stöðugan straum upplýsinga frá sjó til lands og til baka sem skiptir miklu máli í tengslum við stýringu á veiðum, vinnslu og markaðssetningu.“

Svavar segir að tækniframþróunin skili sér í hærra verðmæti  og lækkun framleiðslukostnaðar. Grunnurinn að því að reka samkeppnisfært fyrirtæki á alþjóða vettvangi sé ennfremur að fyrirtæki séu samkeppnisfær um mannskap í launum og þau verða um leið að vera fýsilegur kostur fyrir fjárfesta. Tækniframfarir  og aukin þekking á komandi árum muni gera þetta mögulegt.

Tæknin lækkar framleiðslukostnað

„Ég hef trú á því að sjávarútvegsfyrirtækin verði ötul í því að nýta sér tæknina til þess að lækka framleiðslukostnað og vera samkeppnisfær við aðrar atvinnugreinar í launum. Launaliðurinn er stærsti einstaki kostnaðarliður sjávarútvegsfyrirtækja. Ég held  að það sé samt dálítið langt í það að fiskveiðar og fiskvinnslan verði mannlausar. Það hafa reyndar verið fluttar fréttir af mannlausum flutningaskipum en fullkomin sjálfvirkni getur ekki verið markmið í sjálfu sér. Markmiðið er frekar að létta störfin og gera þau hættuminni. Það er að draga verulega úr slysum í fiskiðjuverum og á síðustu áratugum hefur slysum úti á sjó fækkað mjög. Við þurfum að geta boðið aldamótakynslóðinni upp á öruggt vinnuumhverfi þannig að það sé sóst eftir því að vinna til sjós og við fiskvinnslu. Þá þurfum við líka að vera samkeppnisfær við aðrar atvinnugreinar um laun. Annað slagið hefur sjávarútvegurinn ekki verið samkeppnisfær í launum. Á síldarárunum voru erfiðleikar að manna ísfisktogarana  og þurfti að „sjanghæa“ mannskapinn um borð. En með skuttogaravæðingunni aukast veiðarnar og þar með launin og auðveldara verður að manna skipin. Mér eru minnistæðir tímar þegar mjög erfitt var að fá mannskap til sjós og í landi. Í sjómannaverkfallinu 2016-2017, sem stóð yfir í tvo mánuði, áttum við á hættu að missa frá okkur starfsfólk en það skilaði sér allt til baka að loknu verkfalli. Við teljum að það hafa verið til marks um það að starfsfólkið vilji vinna hjá okkur. Við áttum okkur á því að við erum ekki bara í samkeppni úti á matvælamörkuðum heldur líka um starfsfólk,“ segir Svavar.

Guðmundur fjórtándi

Miklar breytingar hafa orðið á eignarhaldi og samsetningu HB Granda í gegnum tíðina en þó ekki síst á síðustu mánuðum. Síðastliðið vor keypti Útgerðarfélagið Brim hf. öll hlutabréf Vogunar hf. og Fiskveiðihlutafélagsins Venusar hf. í HB Granda og nemur eignarhlutur Brims í HB Granda nú 35%. Skömmu síðar lét Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri félagsins af starfi og við tók Guðmundur Kristjánsson, eigandi Brims sem forstjóri HB Granda. Í haust keypti HB Grandi svo allt hlutafé í Ögurvík af Brimi hf.

„Ég held að Guðmundur sé 14. forstjórinn minn frá því ég hóf störf hjá Ísbirninum 1975 og ég sagði honum að nú væri ég hættur að telja. Nýi forstjórinn er áhugasamur að horfa yfir sviðið og sjá hverju hann getur breytt og bætt. Ég get ekki annað séð en að Guðmundur er stórhuga og vilji gera góða hluti hérna í fyrirtækinu. En við breytingar af þessu tagi myndast „passíft“ ástand sem fylgir því þegar nýir aðilar koma að. Það ríkir ákveðin óvissa um framtíðina og hún getur staðið yfir í talsverðan tíma og er alls ekki þægileg fyrir starfsfólkið. Stjórnendur fyrirtækisins gera sér alveg grein fyrir því. Engu að síður var löngu vitað að ég er sjálfur að hætta hjá fyrirtækinu. Við settum þá reglu fyrir mörgum árum að starfsfólk hættir störfum árið sem það verður sjötugt. En ég horfi yfir farinn veg og er sáttur.