sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Er makrílævintýri í uppsiglingu í Breiðafirði?

10. júlí 2009 kl. 10:47

Fjöldi smábáta býr sig nú undir makrílveiðar á handfæri í Breiðafirði. Silfurnesið SF frá Hornafirði er komið þangað og var að hefja veiðar úti fyrir Ólafsvík nú fyrir stundu, að því er Grétar Vilbergsson skipstjóri sagði í samtali við Fiskifréttir. Um sex smábátar í Breiðafirði eru að undirbúa sig til þessara veiðar og tveir aðrir bátar á Höfn í Hornafirði eru í startholunum.

Þrír bátar frá Hornafirði hafa undanfarin tvö til þrjú ár  reynt fyrir sér með veiðar á makríl á handfæri og hafa keypt til þess sérstakan búnað. Makríllinn hefur aðallega veiðst suðaustur af landinu en veiðin þar hefur verið heldur treg á handfærin í sumar. Makríllinn finnst nú hins vegar öllum á óvörum í miklum mæli í Breiðafirði.

Grétar sagði í samtali við Fiskifréttir nú í morgun að ef vel gengi myndi hann halda þessum veiðum áfram í sumar. Hann gerði ráð fyrir að landa makrílnum hjá Fiskmarkaði Íslands í Ólafsvík.

Þess má geta að makríllinn er verðmætasti uppsjávarfiskurinn. Sem dæmi má nefna að vinnsluskipin sem hausskera og frysta makríl um borð fá um 250-300 krónur á kílóið í skilaverð.

Nokkrir Ólafsvíkingar voru um borð í Silfurnesinu í morgun til að kynna sér þessar veiðar. Einn þeirra Magnús Emanúelsson, sem gerir út Manga á Búðum SH, sagði í samtali við Fiskifréttir að hann hefði veitt um 70 kíló af makríl á stöng í fjörunni við Ólafsvík á tveimur klukkutímum. Þessi makríll hefði verið sendur ferskur og kældur með flugi til kaupanda í Belgíu til prufu á vegum fiskmarkaðarins. Magnús sagði að þessi eini kaupandi væri tilbúinn til að kaupa 20-30 tonn af makríl á viku.

Fram kom hjá Magnúsi að hann ásamt fimm öðrum smábátaeigendum á svæðinu væru búnir að panta búnað til veiða á makríl á handfæri en til þess þarf sérstakar rúllur, færi og afslítara.

Tveir aðrir bátar frá Hornafirði hafa veitt makríl á handfæri suðaustur af landinu, Sævar SF og Siggi Bessa SF. Unnsteinn Þráinsson, skipstjóri á Sigga Bessa SF, sagði í samtali við Fiskifréttir í morgun að hann hefði farið í tvo róðra á makrílinn. Í þeim fyrri fékk hann eitt tonn og í þeim síðari eitt og hálft tonn. ,,Makríllinn hér er frekar smár og dreifður. Því er erfitt að veiða hann. Við fylgjumst spenntir með því hvernig veiðarnar ganga í Breiðafirði og væntanlega förum við þangað ef vel veiðist,“ sagði Unnsteinn.