mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB leggur til að viðmiðunarverð á hvítfiski lækki um 1-6% á næsta ári

1. desember 2009 kl. 15:00

Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt tillögur fyrir árlegt viðmiðunarverð fyrir ferskar og frystar sjávarafurðir á árinu 2010, að því er fram kemur á vefnum Fisker Forum.

Framkvæmdastjórnin leggur til að viðmiðunarverð á ferskum hvítfiski og krabbadýrum lækki um 1-6%.

Efnahagskreppan hefur haft áhrif á eftirspurn eftir fiski innan ESB. Minni eftirspurn hefur leitt til mikilla verðlækkana á fiski á fyrri hluta ársins 2009, einkum hvítfiski. Á hinn bóginn hefur verðþróunin á uppsjávarfiski og frosnum afurðum ekki verið eins slæm.

Nokkrar tegundir uppsjávarfisks hafa hækkað í verði, sardínur og hvíti túnfiskur um 1% og 3% en verð á síld, makríl og fleiri tegundir hefur lækkað um 1-4%. Fyrir frystar afurðir leggur ESB til að viðmiðunarverð hækki um 1% og 2% fyrir kolmunna og rækjur en lækki milli 1% og 4% fyrir grálúðu og fleiri tegundir.

Tillögur framkvæmdastjórnarinnar taka mið af meðalverði innan aðildarríkja síðustu þriggja ára. Aðrir mikilvægir þættir eru einnig teknir með í reikninginn svo sem framboð og eftirspurn á hverjum tíma.