miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB sektar Íra um 700 milljónir vegna skólprennslis

3. nóvember 2009 kl. 12:26

Embætti umhverfisstjóra Evrópusambandsins hefur sektað írsk stjórnvöld um 3,8 milljónir evra eða jafnvirði nálægt 700 milljóna íslenskra króna fyrir að látið undir höfuð leggjast að ráða bót á skólpvandamálum í námunda við skelfiskrækt við strendur landsins.

Evrópudómstóllinn kvað upp þann úrskurð sumarið 2007 að ríkisstjórn Írlands bæri að grípa til aðgerða til að stöðva frárennsli úrgangs í sjóinn þar sem skelfiskrækt væri stunduð, en umhverfisstjóranum þykir lítið hafa gerst síðan.

Framkvæmdastjóri samtaka skelfiskframleiðenda á Írlandi segir í samtali við breska blaðið Fishing News að skelfiskiðnaðurinn þurfi að leggja í mikinn kostnað til þess að standast ýtrustu kröfur í umhverfismálum bæði frá hendi ESB og írska umhverfisráðuneytisins en á sama tíma er látið viðgangast af opinberri hálfu að sveitarstjórnir dæli skólpi og öðrum úrgangi úr bæjunum beint í sjóinn.