mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eskja fordæmir vinnubrögð sænskra sjónvarpsmanna

23. mars 2009 kl. 09:29

Stjórn Eskju hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni af sænska sjónvarsþættinum Uppdrag Granskning sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu 25. febrúar síðastliðinn og fjallaði að miklu leyti um neyslu á laxi, laxeldi og fóðrun á eldisfiski.

Í yfirlýsingunni segir:

,,Fullyrðingar og framkoma starfsmanns Eskju hf. í þættinum endurspeglar á engan hátt viðhorf félagsins né eigenda þess. Sænsku sjónvarpsmennirnir nálguðust félagið á fölskum forsendum og viðkomandi starfsmaður var fenginn til viðtals á eigin ábyrgð. Markmið Svíanna var að fjalla um venjulegan mann í íslensku sjávarþorpi en ekki átti að nota framlag hans í því samhengi sem síðar varð ljóst. Harmar stjórn Eskju hf. þessi vinnubrögð sænska sjónvarpsfólksins við gerð þáttarins.

Stjórn Eskju hf. gerir auk þess fyrirvara um framsetningu þáttarins varðandi  veiðar fyrirtækisins á uppsjávarfiski og viðskipti félagsins við norska fóðurframleiðendur.

Eskja hf. er sjávarútvegsfyrirtæki á Eskifirði með 70 starfsmenn. Félagið gerir út tvö uppsjávarveiðiskip og starfrækir hágæða fiskimjölsverksmiðju. Eskja hf. er aðili að yfirlýsingu sjávarútvegsráðuneytisins um ábyrgar fiskveiðar á Íslandsmiðum og hagar starfsemi sinni í samræmi við það.

Vegna frétta á Visir.is um verksmiðjustjóra Eskju hf.  

Að gefnu tilefni vill Eskja hf. taka það fram að verksmiðjustjóra félagsins hefur ekki verið vikið úr starfi vegna fréttaskýringaþáttar eins og komið hefur fram í íslenskum fréttamiðlum. Hinsvegar voru skipulagsbreytingar gerðar á félaginu og ráðinn nýr yfirmaður yfir mjöl og lýsisdeild með breyttar áherslur. Verksmiðjustjóri Eskju hf. starfar enn og mun starfa hjá félaginu og heyrir undir nýjan yfirmann mjöl og lýsisdeildar.