mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fer Hafró-afli þorsks í 4 þúsund tonn?

17. júlí 2009 kl. 15:00

Svokallaður Hafró-afli í þorski hefur tvöfaldast á tveimur árum og stefnir í það að vera sama tonnatala á fiskveiðiárinu og heimilað hefur verið að veiða við strandveiðar, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.

Það sem af er fiskveiðiárinu, frá september til og með júní, hefur verið landað 3.418 tonnum af þorski sem Hafró-afla samkvæmt samantekt Fiskifrétta byggt á tölum frá Fiskistofu. Þessi afli er utan kvóta og bætist því við þau 162.500 tonn af þorski sem heimilt er að veiða á fiskveiðiárinu.

Á sínum tíma var skipum heimilað að landa allt að 5% af aflaheimildum án þess að þau dragist frá aflamarki viðkomandi skips. Var það gert til að draga úr líkum á brottkasti. Landa þurfti þessum afla á fiskmarkað. Einungis 20% af söluverðmæti fer til útgerðar en afgangurinn að frádregnum kostnaði rennur í opinbera rannsóknasjóði.

Á fiskveiðiárinu 2005/2006 var 1.289 tonnum af þorski landað sem Hafró-afla á tímabilinu september til júní, næsta fiskveiðiár á eftir var þessi tala komin í 1.532 tonn á sama tíma, árið þar á eftir var 2.385 tonnum af þorski landað og stóra stökkið kom svo á þessu fiskveiðiári. Það sem af er fiskveiðiárinu er búið að landa 3.418 tonnum af þorski eins og getið er hér að framan sem er um þúsund tonnum meiri Hafró-afli en var kominn á land á sama tíma í fyrra og tvöfalt meiri en á sama tíma fyrir tveimur árum. Í júlí og ágúst í fyrra var landað samtals 477 tonnum af þorski sem Hafró-afla. Ef fram fer sem horfir má gera ráð fyrir því að á þessu fiskveiðiári verði alls landað um 4 þúsund tonnum af þorski sem Hafró-afla.