mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fish and Chips: Verð á íslenskum þorski ótrúlega lágt

7. mars 2009 kl. 09:26

,,Verð á íslenskum þorski er ótrúlega lágt. Ég hef aldrei keypt eins mikið inn af íslenskum fiski áður, hingað til hefur hann allur komið frá Færeyjum,” segir Gregg Howard varaformaður samtaka Fish and Chips búða í Bretlandi í samtali við sjávarútvegsvefinn IntraFish. 

Douglas Roxburgh formaður samtakanna segir í samtali við IntraFish að lágt verð á þorski frá Íslandi geri það að verkum að síður þurfi að leita að ódýrari valkostum.

Alaskaufsi var settur á matseðla margra Fish and Chips búða í Bretlandi á síðasta ári sem ódýr valkostur við þorsk og ýsu þegar verðið á þeim var hátt. Nú hefur dæmið snúist við í verðlagningu á þessum tegundum og alaskaufsinn er lítið notaður lengur í þessa fiskrétti.

Verðhækkunin á alaskaufsanum kemur til vegna þess að samdráttur hefur orðið í veiðiheimildum á þessari tegund. Á sama tíma hefur verð á þorsk og ýsu lækkað mikið ytra. Á vef IntraFish er fullyrt að ýsuverðið í Bretlandi sé nú 50% lægra en það var í fyrra þegar það komst hæst. Ýsan fáist nú á lægra verði en alaskaufsi. 

Fish and Chips verslanir í Bretlandi eru um níu þúsund talsins og eru þorskur og ýsa langvinsælustu fisktegundirnar.