miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskeldi á Íslandi komið til að vera

Guðjón Guðmundsson
26. desember 2018 kl. 14:00

Ólafur Arnarson, framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm. MYND/GUGU

Eldi á senegalflúru frá árinu 2013 við hlið Reykjanesvirkjunar

Stolt Sea Farm er dótturfyrirtæki samnefnds fyrirtækis á Spáni og móðurfélagið er hið norska Stolt Nielsen. Íslenska félagið var stofnað árið 2012. Fyrstu seiðin komu inn í stöðuna í lok árs 2013. Seiði koma frá móðurfélaginu á Spáni 40 daga gömul. Fyrsta slátrun fór fram í febrúar 2015. Frá því í byrjun og til þessa dags hefur verið framleitt  um 2.000 tonnum af senegalflúru í stöðinni. Ólafur Arnarson, framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm, segir að það þyrfti gríðarlegar fjárfestingar til viðbótar ef ætlunin væri að vera með klak og seiðaeldi  og þær séu ekki réttlætanlegar fyrir 500 tonna eldisstöð.  Ársframleiðslan þyrfti að vera 1.500 tonn til að það hagkvæmt  að ala fiskinn upp í sláturstærð frá klaki.

Ólafur segir mjög gott samstarf milli fyrirtækjanna á Íslandi og Spáni. Mjög vel gengur með seiðaflutninga til landsins. Seiðin koma með flugi í sérútbúnum tönkum sem Stolt Sea Farm á Spáni smíðar. Einnig hefur verið gott samstarf við Icelandair. Seiðin koma á fimm til sex vikna fresti og þá allt frá 330 til 400 þúsund stykki í hverri sendingu. 14 til 18 mánuði tekur að ala þau upp í sláturstærð og ræðst það af því hve stór sláturfiskurinn á að vera.

„Við erum með marga stærðarflokka  og ræðst af eftirspurn á hverjum markaði fyrir sig. Bandaríkin vill stærri fisk en Suður-Evrópa  þekkja smærri fiskinn og vilja hann. Það er mikill verðmunur milli stærða eða allt að 35% á smæsta og stærsta fiskinum,“ segir Ólafur.

Lítið framleitt í Evrópu

Kílóverð á heilli senegalflúru er frá 12  og upp í 17 evrur. Fiskurinn er seldur óunninn á helstu markaði en verðin breytast eins og á annarri vöru sem skýrist af markaðsaðstæðum hverju sinni. Ólafur segir samt ekki mikla samkeppni í eldi á senegalflúru á heimsvísu. Lítið magn sé framleitt í Evrópu en flatfiskur af ýmsu tagi er framleiddur víða. Senegalflúra þykir líkjast Doverflúru sem er vel þekktur  fiskur og eftirspurn er mikil. Kosturinn við senegalflúruna er að hún er ódýrari og neytendur hafa stöðugt aðgengi að henni. Stöðugleiki í framboði sé því mikilvægur. Allur gangur er á því hvernig hann er matreiddur. Algengt er að hann sé reiddur fram heill á disk en einnig er hann flakaður og matreiddur eftir hugmyndaauðgi matreiðslumannsins.

Suður-Evrópumenn kaupa smærri fiskinn í stórverslunum og sá markaður tekur við miklu magni. Þeir vilja síður stærri fiskinn. Senegalflúra veiðist villt, t.d. við Frakkland, en ekki í miklu magni. Doverflúran veiðist í  mun meira magni og meðan framboð er af henni dregur úr eftirspurn á eldisflúru.

Óvissa í efnahagsmálum erfið

Uppi eru áform um mikla stækkun eldisstöðvarinnar á Reykjanesi. Sem fyrr segir er framleiðslugetan nú 500 tonn á ári en áætlanir gera ráð fyrir að hún geti farið upp í 2.000 tonn á ári. Ólafur segir erfitt að gera langtímaáætlanir með rekstur fyrirtækis eins og Stolt Sea Farm og fylgja þeim eftir þegar stöðug óvissa er með gengi gjaldmiðilsins í landinu og stöðuna á vinnumarkaði. Stolt Sea Farm á Íslandi hefur algjöra sérstöðu í þessum efnum þegar litið er til fyrirtækjasamsteypunnar allrar. Launaliðurinn í rekstri fyrirtækisins er 25-35% af kostnaðarliðum sem er nálægt meðallagi í atvinnurekstri. En óvissan í rekstrarumhverfinu sé talsverð og komandi kjaraviðræður séu ekki til að blása mönnum mikla bjartsýni í brjóst. Þetta skapi áskoranir varðandi ákvarðanatökur til framtíðar.

„Fyrirtækjastefnan er þannig að það er ekki byrjað á næsta áfanga fyrr en fyrsti áfangi er kominn nákvæmlega á þann stað sem við viljum hafa hann varðandi framleiðslu og búið að slípa alla vankanta af. Það koma upp nýjar áskoranir á leiðinni og stöðugar umbætur eiga sér stað á nýju fyrirtæki. Við erum enn í fyrsta áfanga sem er einn þriðji af heildarumfanginu samkvæmt áætlunum. Að mínu mati erum við komnir 85% áleiðis upp úr fyrsta áfanga. Þegar gerðar eru áætlanir í grein eins og fiskeldi er nauðsynlegt að hafa nægilega mikið af sögulegum gögnum til að styðjast við og greina hvernig þróunin hefur verið.“

12 fótboltavellir

Eins og sjá má á þessu er mikill agi í áætlanagerð og rekstri fyrirtækisins. Allar stærri ákvarðanir eru teknar af stjórn Stolt Sea Farm á Spáni. Gangi allt eftir fer framleiðslan upp í 2.000 tonn á ári og fyrir því eru öll tilskilin leyfi. Eldisrýmið er á 27 þúsund fermetrum. Þetta mikla rými helgast af því að þarna er verið að ala upp flatfisk sem þarf meira af fermetrum. Með stækkuninni yrði eldisrýmið á 75 þúsund fermetrum sem er svipað flatarrými og 12 fótboltavellir af löglegri stærð. Lóðin undir stækkunina er tilbúin og mikið hefur þegar verið fjárfest í seinni áfanganum.

Grundvöllur fyrir klaki og seiðaeldi

Ólafur segir að með seinni áfanganum væri kominn grundvöllur fyrir klaki og seiðaeldi og það er hluti af áætluninni að sú starfsemi verði á staðnum. Þar með yrði starfsemin umtalsvert meiri en nú er. Eingöngu við seiðaeldi myndu starfa um 20 manns og starfsmannafjöldi stöðvarinnar myndi þrefaldast og færi úr um 20 manns í 60 til 70 manns. Miðað við mörg önnur framleiðslufyrirtæki er eldisstöð Stolt Sea Farm því ekki mannfrek. Stöðin er mjög tæknivætt.

„Allt fiskeldi kallar á mikið eftirlit. Það er alltaf vakt og bakvakt því það er svo gríðarlega mikið undir ef eitthvað kemur upp á. Þá er ég ekki aðeins að vísa í afurðirnar sem slíkar heldur líka framleiðslugatið sem myndast þegar heil kynslóð tapast. Það er ekki stoppað upp í slíkt gat á nokkrum mánuðum heldur tekur það eitt til eitt og hálft ár. Þá þyrfti að breyta öllu framboði sem stöðin getur staðið undir og jafna það út. Þetta er martröð hvers framleiðslufyrirtækis. Það sem mögulega getur gerst mun gerast. En við höfum verið heppnir fram til þessa og höfum haft gott viðbragð ef eitthvað hefur komið fyrir. Við erum háðir vatnstöku að hluta frá Reykjanesvirkjun og þar getur ýmislegt komið upp á. Það þarf ekki annað en rafmagnsleysi á svæðinu og þá detta út dælur. Við erum að sjálfsögðu með ljósavélar sem koma sjálfvirkt inn en mikið af búnaðinum er með tölvustýringum og fari rafmagn af getur margt farið úrskeiðis,“ segir Ólafur.

Samspilið einstakt

Sjúkdómar hafa heldur ekki komið upp í eldinu frá því það hófst í lok árs 2013. Þar nýtur það góðs af samstarfinu við móðurfélagið á Spáni og þá reynslu sem það býr yfir.

Ólafur segir að kostirnir við staðsetningu eldisstöðvarinnar sé aðgengi að sjó úr borholum við Reykjanesvirkjun. Stolt Sea Farm er með sínar eigin borholur og nota kaldari sjó úr þeim til að kæla sjóinn frá virkjuninni úr 34-35 gráðum niður í 21 gráðu. Þessu fylgi mikill hagræðing  því dýrt er að hita upp vatn.

„Samspil eldisins og virkjunarinnar er einstakt og þetta fyrirtæki væri ekki hér ef við þyrftum að hita upp sjó. Þá væri hægt að setja það upp hvar sem er. Nálægð við alþjóðaflugvöll hefur líka sitt að segja. Allt þetta mikla framboð af flugi til og frá landinu er líka jákvætt. Það myndi hafa gríðarleg áhrif á útflutning á ferskan fisk frá Íslandi ef flugferðum fækkar. Það getur verið áskorun að fá pláss í fraktinni inn á helstu markaði nú þegar.“