sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskifræðingar og skipstjórar þinga um þorskinn

27. nóvember 2009 kl. 15:00

Lokið er árlegum fundi samstarfshóps um þorskrannsóknir sem fór fram dagana 19.-20. nóvember. Þar komu saman um 15 skipstjórnarmenn og útgerðaraðilar sem búa yfir sérþekkingu á sviði þorskveiða mismunandi útgerðaflokka allt í kringum landið ásamt sérfræðingum Hafrannsóknastofnunarinnar, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.

Á fyrri hluta fundarins fóru skipstjórnarmenn yfir gang veiða á árinu og sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar kynntu stofnmat frá því í vor, niðurstöður stofnmælingar í október og úrvinnslu úr afladagbókum frá fyrstu 10 mánuðum ársins. Á seinni hluta fundarins fluttu sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar erindi sem fjölluðu um þorsk við Grænland, aflareglu og nýtingarstefnu. Jafnframt var á dagskránni umræða um hvort meira væri af þorski en fiskifræðingar áætla og samvinna á milli sjómanna og Hafrannsóknastofnunarinnar við gagnasöfnun. Góður tími var gefin til skoðanaskipta og umræðna.

Tilgangur með samstarfshópnum er að leiða saman hóp skipstjórnarmanna og fiskifræðinga til að skiptast á upplýsingum og ræða ástand þorskstofnsins. Skipstjórnarmenn voru á einu máli um að þorskveiðar hefðu gengið vel að undanförnu, meira af stærri þorski og mun auðveldara að ná úthlutuðu aflamarki en verið hefði. Jafnframt kom fram í umfjöllun skipstjórnarmanna að þorskur væri nú víða í miklu æti; síld, makríl, gulldeplu og kolmunna, og í góðum holdum. Fiskifræðingar töldu upplifun sjómanna í ágætu samræmi við mat á stærð og aldurssamsetningu stofnsins og þá vaxtaraukningu sem kom fram í stofnmælingunni nú í haust. Skýrt kemur fram í stofnmælingum að nú er hlutfallslega muna meira af stærri þorski í stofninum en verið hefur að jafnaði síðan stofnmælingar hófust. Sá hluti stofnsins sem hefur náð 8 ára aldri hefur farið vaxandi að undanförnu og er nú rúmlega tvöfalt stærri en árið 2004 þó svo að stærð viðmiðunarstofns (fjögurra ár og eldri) hafi lítið breyst á sama tímabili. Jafnframt bentu fiskifræðingar á að nú væri verið að draga verulega úr sókn, verið að veiða lægra hlutfall úr stofninum, og því eðlilega auðvelt að ná meiri afla en heimilt er skv. aflamarki. Jafnframt kom fram að vegna minna rasks á miðunum þegar dregið er úr sókn aukist aflabrögð meira en sem nemur aukningu í stofnstærð. Um málefnið sköpuðust fjörugar umræður. Töldu sumir skipstjórnarmenn ekki einhlítt hvernig fiskifræðingum tækist ávallt að túlka umræðuna sem samhljóm og voru ekki alveg vissir um að sérfræðingar tækju nægjanlegt mark á þeirra upplýsingum.

Kynnt voru á fundinum samstarfsverkefni þar sem sjómenn safna gögnum úr afla og möguleikar á frekara samstarfi voru ræddir. Voru skipstjórnarmenn mjög jákvæðir gagnvart frekara samstarfi og munu sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar vinna að tillögum hvernig slíku samstarfi verði best háttað.

Í forsvari fyrir Samráðshóp um þorskrannsóknir eru þeir Björn Ævarr Steinarsson, fiskifræðingur og Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur.