miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskimálastjóri ESB: Ofveiðinni verður að linna

23. febrúar 2009 kl. 12:22

Joe Borg, fiskimálastjóri Evrópusambandsins, var þungorður í garð hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins í ræðu sem hann flutti á opnum fundi sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins fyrir skömmu. "Ofveiðinni verður að linna," sagði hann m.a. og bætti við að gera þyrfti grundvallarbreytingar á stefnunni svo stunda mætti sjávarútveg innan ESB með sjálfbærum hætti.

"Við verðum að komast út úr núverandi stöðu, þar sem allt of mörg skip eru að eltast við allt of lítið magn af fiski. Þetta leiðir til óarðbærs reksturs sem bitnar á kjörum sjómanna og afkomu strandbyggða þegar harðnar á dalnum í efnahagsumhverfinu," sagði Borg.

Fiskimálastjórinn ræddi nauðsyn þess að ákvarðanataka færðist nær þeim sem málið snerti en nú er. Þá sagði hann að auka þyrfti ábyrgð innan atvinnugreinarinnar sjálfrar, þannig að þeir sem þar starfa væru meðvitaðir um að þeir hefðu áhrif á mótun hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins.

Borg kom í lok ræðu sinnar inn á áhrif frístundaveiða. Hann sagði tölur sýna að þær hefðu í sumum tilvikum umtalsverð áhrif á viðkvæma stofna. "Það gengur auðvitað ekki að þeir sem hafa atvinnu af veiðum þurfi að sæta ströngum takmörkunum á meðan frístundaveiðimenn leika lausum hala. Þeir verða einnig að taka þátt í verndunarstarfinu."

Skýrt er frá þessu á vef LÍÚ