mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskistofa vísar orðrómi um smáýsudráp á bug

11. desember 2009 kl. 12:24

,,Ég fullyrði að þessar sögusagnir eiga ekki við rök að styðjast,” sagði Þórhallur Ottesen á veiðieftirliti Fiskistofu í samtali við Fiskifréttir, en þrálátur orðrómur hefur verið á sveimi þess efnis að mikið smáýsudráp hafi verið stundað á síldveiðum í námunda við Stykkishólm.

Svo virðist sem um misskilning sé að ræða sem ef til vill megi rekja til þess að Ingunn AK fékk í nóvember fyrir slysni 17 tonn af ýsu sem meðafla í einu síldarkasti í Kiðeyjarsundi. Þetta var ýsa af hefðbundinni veiðistærð, að sögn Þórhalls, en virðist hafa breyst í seiði þegar sagan gekk milli manna. Útgerð Ingunnar AK lagði kvóta á móti þessum meðafla eins og lög gera ráð fyrir.

,,Menn frá Fiskistofu hafa farið í vinnslustöðvarnar þar sem síldin er unnin til manneldis og fylgst með flokkun aflans. Nýtilegur bolfiskur er tekinn frá og unninn og kvóti lagður á móti. Engin seiði hafa komið fram. Ef svo hefði verið hefði svæðinu verið lokað,” sagði Þórhallur.

Nánar um málið í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.