sunnudagur, 9. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskur í forgrunni á Hildibrand

29. desember 2017 kl. 15:00

Uppbygging í veitinga- og afþreyingargeiranum á Neskaupstað


Stórri og vel rekinni útgerð og fiskvinnslu, eins og Síldarvinnslunni í Neskaupstað, fylgja ótal afleidd störf og verkefni. Umsvifamestur í rekstri hótels og veitingastaða á staðnum er Guðröður Hákonarsson, fyrrverandi bóndi, og hans fólk. Beituskúrinn var opnaður síðastliðið vor þar sem framreiddur er plokkfiskur sem Guðröður framleiðir sjálfur úr hráefni frá Síldarvinnslunni í Mjólkurstöðinni. Gamla kaupfélagshúsinu á Hafnarbraut 2 hefur verið  breytt í Hildibrand hótel. Á jarðhæðinni stóðu yfir breytingar þegar Fiskiréttir kíktu í heimsókn. Þar var verið að innrétta nútímalegan og glæsilegan veitingastað þar sem áherslan verður á ferskan fisk úr sjó.


gugu@fiskifrettir.is

Guðröður er fæddur á Efri-Miðbæ í Neskaupstað. Þar ólst hann upp og tók við búi foreldra sinna og  var kúabóndi allt til ársins 2006. Núna rekur hann Mjólkurstöðina, Hildibrand hótel og Beituskúrinn í félagi með syni sínum, Hákoni. Auk þess gera þeir út eikarbátinn Gerpi NK til skemmtisiglinga.

Hús með sögu

Gamla kaupfélagshúsið er eitt reisulegasta húsið á Neskaupstað. Það var byggt árið 1948, sama ár og vegurinn um Oddskarð var opnaður. Húsið reisti Guðröður Jónsson, afi Guðröðar og kaupfélagsstjóri um áratugaskeið. Í húsinu voru verslanir á þremur hæðum. Á neðstu hæð var matvara og byggingavara, á annarri hæð herradeild og á þeirri þriðju álnavöruverslun og kvennadeild. Húsið er allt byggt á súlum eins og nútíma verslunarhúsnæði er byggt í dag. Það voru því framsýnir menn sem reistu þessa byggingu.

Bæjarskrifstofurnar voru í húsinu fram til ársins 2011 og frá því stóð það autt þar til Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, stærsti eigandi Síldarvinnslunnar, keypti það árið 2015. Í framhaldinu kom Guðröður og Hákon að rekstri hótelsins og veitingastaðarins í húsinu.

Samstarf við Síldarvinnsluna

„Á sumrin erum við að minna ferðamenn á það að þeir eru staddir í sjávarþorpi. Um 60% af þeim mat sem við seljum er fiskur. Hér er beintenging við staðinn. Neskaupstaður er sjávarútvegsstaður með stóra útgerð. Við eigum ekki að leggja alla áherslu á það að pranga kjöti inn á ferðamenn heldur miklu frekar fiski. En að sjálfsögðu verður þetta þó allt að vera í bland,“ segir Guðröður sem sjálfur heldur um 50  kindur á landi sínu svo ekki er langt í aðföngin.

Síldarvinnslan fær fjölda innlendra og erlendra gesta og fyrirtækið vill gjarnan geta boðið þeim upp á sínar afurðir matreiddar samkvæmt kúnstarinnar reglum og í fallegu umhverfi. Í hópi gestanna eru fiskkaupendur sem kaupa fisk jafnvel fyrir hundruði milljóna króna á  hverju ári. Hráefnið kemur því frá Síldarvinnslunni og meðafli eins og lúða, steinbítur, skötuselur og aðrar fágætari tegundir eru vel séðar í eldhúsinu á Hótel Hildibrand. Guðröður segir að Síldarvinnslan hafi staðið sig mjög vel í því að sjá veitingastaðnum fyrir góðu hráefni.

„Það er hagur allra í svona byggð að geta boðið upp á fisk á veitingastöðum. Síðustu fjögur ár hefur ferðamönnum sem leggja leið sína hingað fjölgað á hverju ári. Erlendir ferðamenn eru mjög hrifnir af fiskinum. Við urðum þó varir við það síðastliðið sumar að þeir spöruðu við sig í dýrum mat. En í fyrra og hitteðfyrra var vinsælasti rétturinn okkar svokölluð fiskitvenna.“

Plokkfiskurinn vinsæll

Á ófáum stöðum berst meira magn af makríl á land eins og í Neskaupstað. Fyrir fáeinum árum þekktu Íslendingar makríl aðallega af afspurn og því hefur ekki þróast nein hefð fyrir matreiðslu á þessari tegund. Hún þykir þó herramannsmatur í löndunum í kringum okkur. Í eldhúsinu á Hildrand hótel var reynt að matreiða makríl en Guðröður segir að vandamálið við þetta hráefni er hve fiskurinn er feitur. Það þurfi að hitta á réttu matreiðsluaðferðina til þess að hægt sé að bjóða upp á makríl á matseðlinum.

Guðröður missti þó ekki stóran spón úr aski sínum þótt umsvifin í eldhúsinu á Hótel Hildibrand hefðu minnkað dálítið síðastliðið sumar. Rétt neðar í götunni er nefnilega veitingastaðurinn Beituskúrinn. Eins og nafnið ber með sér gegndi hann áður hlutverki beituskúrs en var orðinn lúinn og illa farinn þegar Guðröður keypti hann í fyrra. Þar seldust ófáir skammtarnir af plokkfiski sem Guðröður framleiðir í gömlu Mjólkurstöðinni.

„Fyrir sex árum keyptum við Mjólkurstöðina og breyttum henni í veislueldhús. Þar megum við framleiða mat til endursölu. Mjólkurstöðin sér Hótel Hildibrand og Beituskúrnum fyrir meira unnu hráefni. Við tökum inn heilan fisk í Mjólkurstöðina, flökum hann og vinnum hann í steikur og plokkfisk. Við gerum þarna ekta bacalao úr ferskum þorskhnökkum sem eru látnir liggja í sérstökum saltpækli. Við framleiðum líka plokkfisk í talsverðu magni sem við frystum í lofttæmdum umbúðum.“

Margir erlendir ferðamenn eru vel meðvitaðir um plokkfiskinn sem einn af þjóðarréttum Íslendinga sem allar kynslóðir allra tíma hafa alist upp við. Þeir sækja því mjög í það að prófa plokkfiskinn og segir Guðröður upplifun þeirra undantekningarlaust góða. Með plokkfisknum fylgir alvöru þrumari sem Guðröður bakar sjálfur.