þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskur og franskar blómstra í Bretlandi

24. ágúst 2009 kl. 15:00

Um 15 milljónir fleiri skammtar af djúpsteiktum fiski hafa selst það sem af er þessu ári í Bretlandi heldur en á sama tíma í fyrra samkvæmt könnum sem unnin var á vegum UK Sea Fish Industry Authority.

Þessar upplýsingar koma fram á IntraFish. Þar segir ennfremur að rétt rúmur helmingur þessara skammta sé keyptur á fish & chips-stöðum. Salan hafi aukist talsvert því viðskiptavinir leggi leið sína þangað oftar en áður. ,,Viðskiptavinir okkar eru tryggir og hvað sem á dynur í fjármálaheiminum hafa þeir enn traust á djúpsteiktum fiski og frönskum,“ er haft eftir einum eiganda fish&chips-staðar. Hann bendir á að æ fleiri Bretar kaupi nú fisk og franskar í stað þess að fara út að borða.

Sala á fiski og frönskum eykst meira en sala á öðrum skyndibitum. Þetta gerist þrátt fyrir það að flestir þessara staða eru í eigu sjálfstæðra aðila og þeir njóta því ekki góðs af gríðarlegri markaðssetningu stærri veitingahúsakeðja.

,,Verð ræður mestu um ákvörðun neytenda við núverandi aðstæður. Fish&chips-staðir í Bretlandi bjóða upp á gæðamáltíð á góðu verði og þetta er heilnæmasti skyndibitinn sem hægt er að taka með sér,“ er haft eftir einum aðstandenda könnunarinnar.

Í könnuninni kemur ennfremur fram að enn sé tækifæri fyrir staði sem selja fisk og franskar til að auka viðskiptin meðal annars með því að leggja meiri áherslu á að markaðssetja staðina meðal þeirra sem kaupa sér skyndibita á daginn, sérstaklega í hádeginu. Þá segir að fiskur og franskar sé talin vera þægileg máltíð fyrir alla fjölskylduna. Því sé svigrúm til að auka söluna með því að ná til yngstu hópanna með því að bjóða sérstakar barnastærðir og frítt gos með!