miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskurinn á sér von!

19. ágúst 2009 kl. 13:23

Fiskstofnar í heiminum eiga sér uppreisnar von að dómi vísindamanna sem hafa rannsakað tíu vistkerfi sjávar vítt og breitt um heiminn, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Yfirleitt hefur verið dregin upp dökk mynd af ástandi fiskstofna í heiminum og framtíð fiskveiða enda hefur ofveiði leitt til þess að margir stofnar eru í lágmarksstærð. Hér er kveður við annan tón. Vísindamennirnir horfa á jákvæðari hliðar og benda á að átak gegn ofveiði geti byggt stofnana upp aftur.

Hrun þorskstofnsins við Nýfundnaland á tíunda áratugnum er kannski átakanlegasta dæmið um hvernig farið getur fyrir tegundum sem alltof mikið er sótt í.

Í blaðinu er vitnað í grein sem birtist nýlega í tímaritinu Science þar sem lýst er ástandi fiskstofna í tíu vistkerfum sjávar. Þar var staða 166 fisktegunda og skeldýra metin. Niðurstaðan er sú að dregið hefur úr ofveiði í helmingi þessara vistkerfa. Það eitt gefur mönnum von.

Það er einkum fiskveiðistjórn Bandaríkjanna við Alaska, í austurhluta Beringshafs, sem fær mikið hrós í greininni. Þá er nefnt að dregið hefur verið úr sókn í fiskstofna við Nýja Sjáland, Ísland og austurströnd Bandaríkjanna. Hins vegar er ekki dregin dul á það í greininni að 63% af þeim fiskstofnum sem kannaðir voru þarfnast áframhaldandi uppbyggingar. Ástandið er einkum talið slæmt við Nýfundnaland og í Norðursjó.