föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjarðabyggð vill fá uppsjávarsvið Hafró til Neskaupstaðar

7. mars 2008 kl. 18:31

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti í gær ályktun þar sem skorað er á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir mótvægisaðgerðum í sveitarfélaginu, til að mæta áhrifum af kvótaniðurskurði og aflabresti í loðnu. Meðal þess sem bæjarstjórnin leggur til er að uppsjávarsvið Hafrannsóknarstofnunar verði flutt til Neskaupstaðar.

Þá verði rannsóknir Matís í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtækin efldar og starfsemi Fiskistofu í sveitarfélaginu styrkt. Jafnframt verði kannað hvort hagkvæmt er að gera hafrannsóknaskip út frá Fjarðabyggð.

 Í ályktuninni er skorað er á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir því í samvinnu við sveitarfélagið og sjávarútvegsfyrirtæki þar að styrkja fræðasetrið Búland í Neskaupstað sem miðstöð sjávarútvegsþjónustu og hafrannsókna á Austurlandi.

Lagt er til að uppsjávarsvið Hafrannsóknastofnunar verði starfrækt í Neskaupstað, rannsóknir Matís í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtækin verði efldar og starfsemi Fiskistofu í sveitarfélaginu verði styrkt. Jafnframt verði kannað hvort hagkvæmt er að gera hafrannsóknaskip út frá Fjarðabyggð.

Í bókuninni segir jafnframt að í Fjarðabyggð sé landað meiri sjávarafla en í nokkru öðru sveitarfélagi landsins og um 40% alls uppsjávarafla komi þar á land. Niðurskurður aflaheimilda í þorski og kolmunna og aflabrestur í loðnu komi ákaflega illa niður á fólki og fyrirtækjum í sveitarfélaginu. Mótvægisaðgerða sé þörf og mikilvægt að horfa þar til þátta sem stutt geti við atvinnugreinina nú en jafnframt rennt sterkari stoðum undir hana til framtíðar. Samstaða virðist um nauðsyn þess að efla rannsóknir á loðnu og öðrum uppsjávarstofnum. Þar þurfi að byggja brýr milli vísindalegrar þekkingar sem sé til staðar hjá Hafrannsóknastofnun og verðmætrar reynslu sem sjómenn og útgerðir búi yfir.

Starfsemi Matís ehf. og Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað hafi verið farsæl og þar hafi byggst upp þekking sem byggja megi ofan á. Hafrannsóknir og þá sérstaklega rannsóknir á uppsjávarstofnum, gætu einnig hentað einkar vel á sérstöku þekkingarsetri sjávarútvegsrannsókna í Fjarðabyggð.

Bæjarstjórnin skorar á sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd með aðild ráðuneytisins, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, bæjarstjórnar, sjávarútvegsfyrirtækja í Fjarðabyggð og jafnvel háskóla til þess að undirbúa stofnun slíks þekkingarseturs.

RÚV skýrði frá þessu.