sunnudagur, 9. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjarðanet þjónustar uppsjávarflotann fyrir austan

28. desember 2017 kl. 07:00

Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets. MYND/GUGU

Vöxturinn verður kringum fiskeldið


Fjarðanet rekur Netaverkstæði með alhliða veiðarfæraþjónustu á Ísafirði, Akureyri og í Neskaupstað.  Verkefnin eru aðeins misjöfn milli starfsstöðva.  Fyrir austan er mest áhersla á þjónustu við uppsjávarflotann,  meðan aðal áherslan er á botntroll fyrir norðan og vestan.  Fjarðanet leggur mikla áherslu á þróun og hönnun á nýjum og betri veiðarfærum.  Ein nýjungin er nýtt botntroll sem kallast víðvarp

gugu@fiskifrettir.is

Fjarðanet er samsett út mörgum netaverkstæðum, sem hafa sameinast í eitt stórt og sterkt veiðarfæraþjónustufyrirtæki.  Öll þessi fyrirtæki voru rótgróin á sínum svæðum og spannar saga þeirra yfir 60 ára sögu.  Stærstu eigendur Fjarðanets eru í dag Hampiðjan sem á meirihluta hlutafjár, Fjárfestingafélagið Vör og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga.

Netaverkstæðin voru sameinuð á tímabilinu 1999 – 2005.  Fyrirtækin sem runnu saman í Fjarðanet voru, Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar í Neskaupstað, Nótastöðin Oddi á Akureyri, Netagerð Dalvíkur, Neta- og veiðarfæragerðin á Siglufirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði, Gúmmíbátaþjónusta Austurlands í Neskaupsstað, Netagerð Vestfjarða á Ísafirði og Gúmmíbátaþjónustan Ísafirði.  Nafni fyrirtækisins var síðan breytt í Fjarðanet árið 2005.

 Starfsemin aðlagast aðstæðum í sjávarútvegi

„Í gegnum tíðina höfum við að sjálfsögðu þurft að aðlaga starfsemina að breytingum í sjávarútvegi og höfum þurft að loka starfsstöðvum.  Fjarðanet var með starfsemi á Fáskrúðsfirði, Neskaupstað, Seyðisfirði, Akureyri, Dalvík, Siglufirði og Ísafirði.

Aðstæður í sjávarútvegi og fækkun skipa gerði það að verkum að við þurftum að loka starfsstöðvum og færa verkefni milli verkstæða.  Rækjuveiðar minnkuðu mikið sem hafði áhrif á verkstæðin á Norðurlandi og sérstaklega á Siglufirði.  Loðnuveiðar minnkuðu einnig og breyttust sem kippti grundvellinum undan starfseminni á Seyðisfirði.

Í dag erum við með starfsemi á þremur stöðum á landinu; í Neskaupstað, Akureyri og Ísafirði, þar sem eru stórar og mikilvægar hafnir og umsvif í sjávarútvegi eru mikil.  Í Neskaupstað og á Ísafirði rekur Fjarðanet einnig skoðunarstöðvar fyrir gúmmíbjörgunarbáta og á Reyðarfirði rekur Fjarðanet þvottastöð fyrir fiskeldispoka,” segr Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets.

 Þjónusta við fiskeldi mun vaxa

Umsvifin eru mikil í Neskaupstað sem er ein af stærstu löndunarhöfnum landsins. Þar er stórt fiskjuver í eigu Síldarvinnslunnar og miklar frystigeymslur. Landanir eru tíðar meðan á uppsjávarveiðum stendur og flutningaskip streyma að til þess að flytja út afurðirnar. Þá er mikið líf í bænum og allt snýst þetta um sjávarútveginn. Þetta er umhverfið sem Fjarðanet starfar í á Neskaupstað.

23 starfsmenn eru hjá Fjarðarneti á þessum þremur stöðum. Fyrir austan felast verkefnin fyrst og fremst í þjónustu við uppsjávarflotann, viðgerðum og framleiðslu á nótum og þjónustu við flottroll. Á Akureyri og Ísafirði eru verkefnin aðallega tengd botntrollum.

„Við erum líka að þjónusta fiskeldið og það verður stækkandi þáttur í okkar starfsemi. Þegar fiskeldi hófst hér í Mjóafirði 2003 byggðum við þvottastöð á Reyðarfirði fyrir fiskeldispoka. Við framleiddum líka fiskeldispoka og ýmsan annan búnað. Nú vex fiskeldinu fiskur um hrygg og við sjáum fyrir okkur talsverð verkefni sem tengjast því. Við erum í samstarfi við færeyska fyrirtækið Vónin sem er dótturfyrirtæki Hampiðjunnar. Með þeim ætlum við að byggja upp þjónustu við fiskeldi á Íslandi.“

Þróunarvinna á veiðarfærum

Fjarðanet er í nýframleiðslu á veiðarfærum og þar fer fram mikil þróunarvinna. Nýjungar á því sviði er ný útfærsla af botntrolli sem kallast víðvarpa. Ástæðan er sú að hún er mun víðari en hefðbundin botntroll og nær yfir meira svæði. Í hana hefur verið notuð ný gerð af neti sem Hampiðjan hefur þróað og kallast Advant.

„Við erum alltaf í samstarfi við sjómenn til að betrumbæta og teikna ný veiðarfæri og aðlaga þau sem fyrir eru. Einnig höfum við þróað nýja gerð makrílpoka sem var notaður í uppsjávarskipum Síldarvinnslunnar, Beyki og Berki, í sumar og kom vel út. Hægt er að hafa möskvana mun opnari og meira gegnustreymi í pokunum,“ segir Jón Einar.

Það eru spennandi tímar framundan hjá Fjarðaneti.  Vöxturinn á næstu árum verður í kringum fiskeldið, bæði fyrir austan og vestan, en Fjarðanet mun auka og byggja upp þjónustu við fiskeldi út frá netaverkstæðum sínum í Neskaupstað og á Ísafirði.

„Einnig verður spennandi að takast á við þær áskoranir og möguleika sem fylgja nýju Netaverkstæði í Neskaupsað.  Með nýju Netaverkstæði mun starfsemin í Neskaupstað aukast verulega.”