miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjársvelt stofnun þarf nýtt rannsóknaskip

10. ágúst 2017 kl. 12:00

rs. Bjarni Sæmundsson nálgast 50 árin og því þarf Hafrannsóknastofnun nauðsynlega nýtt skip til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.

Endurnýja þarf rannsóknaskipið Bjarna Sæmundsson þegar í stað – en nær hálf öld er síðan það var smíðað. Ekki er gert ráð fyrir nýsmíði fyrir Hafrannsóknastofnun á fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

„Jú, það er talsvert vandamál. Við þurfum talsvert meira fé til að sinna þessu hlutverki okkar, sem við verðum að telja mikilvægt. Þar fyrir utan er skipakosturinn saga út af fyrir sig. Annað þeirra er orðið mjög gamalt og þarfnast endurnýjunar. Það er eitthvað sem þarf að taka á þegar í stað,“ sagði Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, á fundi fyrr í sumar þar sem ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf stofnunarinnar var kynnt.

Þessi orð Sigurðar féllu í lok fundarins en þá hafði umræða dagsins farið nokkuð út fyrir fundarefnið. Forvitnir gestir höfðu þá kost á því að spyrja um eitt og annað er varðaði ráðgjöfina, en athyglin barst að fjármálum stofnunarinnar – eða öllu heldur því sem ekki væri mögulegt að sinna vegna fjárskorts sem hefur verið viðvarandi árum eða áratugum saman.

Reyndar beindist athyglin að fjármálum stofnunarinnar þar sem hún hefur ekki séð sér fært að hafa innan sinna vébanda einn fuglafræðing.

„Vissulega ættum við að hafa alla íbúa hafsins með í rannsóknum okkar, en eins og er eigum við fullt í fangi með það sem er á okkar borði nú þegar. En vissulega er það alveg rétt, það eru fuglar þarna líka sem eru mikilvægir og miklar breytingar sem hafa orðið í sjófuglastofnum,“ sagði Sigurður.

Bjarni
Sigurður vísar vitaskuld til Bjarna Sæmundssonar, rannsóknaskips Hafrannsóknastofnunar, sem er orðið 47 ára gamalt; kom nýtt til landsins árið 1970.  Á skipinu er 14 manna áhöfn og auk þess er rúm fyrir 13 vísinda- og aðstoðarmenn. Árni Friðriksson, nýrra skip stofnunarinnar, er sérsmíðað til hafrannsókna og er meðal annars útbúið fjölgeisladýptarmæli til kortlagningar sjávarbotnsins og búnaði til samburðarrannsókna á veiðarfærum. Þá er skipið búið fullkomnustu tækni til bergmálsmælinga sem völ er á. Hins vegar kom það til landsins árið 2000, og eldist því hratt. Í skipinu eru íbúðir fyrir 33, þar af 18 manna áhöfn og 15 vísinda- og aðstoðarmenn.

Sigurður segir í viðtali við Fiskifréttir að Bjarni sé vel smíðað skip og þess vegna sé hann ennþá á sjó og við rannsóknir. En skipið sé jafnframt barn síns tíma og farið að láta verulega á sjá.

„Togspilin eru til dæmis orðin léleg, og ef þau fara er hætt við að skipið sé stopp. Reynt hefur verið að fá skipið endurnýjað en án árangurs enn þá. Ég tel samt að það sé vaxandi skilningur á að þetta gangi ekki lengur svona,“ segir Sigurður sem bætir við aðspurður að aðstaðan um borð fyrir vísindamenn til að sinna verkefnum sé þokkaleg, en uppfylli ekki nútíma kröfur. Tæki hafi að nokkru verið endurnýjuð í gegnum tíðina en takmörk séu fyrir því hvað hægt er að réttlæta fjárfestingar í svo gamalt skip.

Óskaskipið
Spurður hversu mikið það takmarkar starfsemi Hafró að hafa ekki nýjasta búnað, nefnir Sigurður sem dæmi að í dag sé kominn mun fullkomnari búnaður til bergmálsmælinga en er í Bjarna í dag, en slíkur búnaður af nýjustu gerð gerir vísindamönnum kleift að mæla stærra svæði í hverjum rannsóknarleiðangri, eða í hverri yfirferð, og svo megi lengi telja.

„Óskaskipið væri svipað stórt eða ívið stærra en Bjarni, sem er hæft til að sinna fjölbreyttum rannsóknum bæði djúpt og grunnt. Það myndi gera allar rannsóknir tryggari, með hagkvæmari rekstri,“ segir Sigurður.

„Árni á hins vegar eftir að endast lengi enn, enda öflugt og gott skip,“ segir Sigurður en spurður um kostnað við að kaupa nýtt fullkomið rannsóknaskip til landsins segir hann að áætlaður kostnaður fyrir nýtt skip sé um þrír milljarðar króna. Hann segir jafnframt að löndin í kringum okkur séu um þessar mundir að endurnýja sín rannsóknaskip.

„Noregur á mörg rannsóknaskip og er að endurnýja þau mörg. Færeyingar eru líka að smíða nýtt skip,“ segir Sigurður.

10 ára framhaldslíf
Bjarni Sæmundsson lagði upp í sinn fyrsta rannsóknarleiðangur í byrjun janúar 1971. Skipið hefur gegnt fjölþættum verkefnum við íslenskar hafrannsóknir en stærstur hefur þar verið hlutur rannsókna á uppsjávar- og botnfiskum, ásamt sjó- og svifrannsóknum, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun.

Árið 1985 voru gerðar viðamiklar endurbætur á skipinu, meðal annars í tengslum við krana á dekki, lagfæringar á brú, tækjaklefa og bergmálstæki. Árið 2003 var síðan skipt um aðalvélar, grandara- og gilsaspil, og móttaka, borðsalur og rannsóknastofur endurnýjaðar.

„Með þessum síðari endurbótum var gert ráð fyrir að skipið myndi nýtast Hafrannsóknastofnuninni í a.m.k. 10 ár til viðbótar,“ segir á vef Hafró sem undirstrikar á hvaða tímapunkti skipið er.

Nýsmíði ekki á áætlun
Skipaður var starfshópur árið 2013 til að undirbúa byggingu og fjármögnun nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun. Var málið kynnt á vef atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins á þeim tíma undir fyrirsögninni „Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar við sjónarrönd.“ Samkvæmt skýrslu sem hópurinn skilaði var þá áætlað að nýtt 40-45 metra langt rannsóknaskip myndi kosta um 2,5 milljarða króna og áætlaður afhendingartími slíks skips væri um 20 mánuðir.

Hins vegar er ekki gert ráð fyrir smíði nýs hafrannsóknaskips næstu árin, samkvæmt fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018-2022, eins og kom fram í Fiskifréttum í maí síðastliðnum þegar starfsemi Hafrannsóknastofnunar var til umræðu á vettvangi Alþingis.

Í svari Þorgerð­ar Katrínar Gunnarsdóttur sjávar­útvegsráðherra í vetur, við fyrirspurn þingsmanns Vinstri grænna, Bjarna Jónssonar, segir þó að til „að halda úti öflugum hafrannsóknum þarf stofnunin að hafa yfir að ráða skipakosti sem nýtist til starfseminnar.“

Því sé það mat ráðherra að þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir nýju skipi sé „engu að síður brýn nauðsyn að endurnýja Bjarna Sæmundsson. Mun ráð­herra halda áfram að beita sér fyrir fjármagni til endurnýjunar skipakosts Hafrannsóknastofnunar.“

 svavar@fiskifrettir.is