mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjórum sinnum meira mældist af loðnuseiðum í ár en í fyrra

24. september 2008 kl. 10:57

Umfangsmikil rannsókn á vistfræði Íslandshafs fór fram 6. ágúst til 2. september s.l. á vegum Hafrannsóknastofnunar á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.

Leiðangurinn er hluti af átaksverkefni til að auka skilning á vistkerfi Íslandshafs, með sérstöku tilliti til ástands loðnustofnsins.

Helsta breytingin í lífríkinu frá árinu 2007 tekur til útbreiðslu og magns loðnuseiða á fyrsta ári en um fjórum sinnum meira mældist af loðnuseiðum í ár en í fyrra.

Seiðin voru á víðáttumiklu svæði í sunnanverðu Íslandshafi og í minna magni við Austur-Grænland. Lítið fannst af eldri loðnu, þ.e. eins árs, tveggja og þriggja ára loðnu, á afmörkuðum blettum í námunda við landgrunn Austur-Grænlands og í minna mæli í sunnanverðu Íslandshafi.

Nokkurt magn fékkst einnig af þorskseiðum á fyrsta ári á landgrunni Íslands norðvestanlands og í minna mæli á landgrunni Austur-Grænlands.

Þetta er þriðja árið í röð sem rannsóknir þessar á vistfræði Íslandshafs fara fram. Í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar segir að mjög umfangsmiklum vistfræðilegum gögnum hafi verið safnað þessum tíma, en helsti annmarki rannsóknanna sé sá að mjög lítið hafi fundist af loðnu á þessum árum og því takmarkaður efniviður til að meta vistfræðileg tengsl loðnustofnsins í ljósi þeirra umhverfisgagna sem safnast hafa.

Á þessu hafi þó orðið ánægjuleg breyting hvað varðar loðnuárgang 2008 eins og ofangreindar niðurstöður beri með sér. Þessi árgangur gæti leitt til stækkandi loðnustofns á komandi árum, ef umhverfisaðstæður reynast hagstæðar, en ekkert sé þó unnt að fullyrða um framvinduna að svo stöddu.

Verði þróunin jákvæð að þessu leyti gæfist færi á að afla gagna um vistfræðileg tengsl ungloðnu á næsta ári á mikilvægu skeiði í lífsögu fisksins.

Leiðangurstjóri í þessum rannsóknum var Ólafur Karvel Pálsson.

Sjá nánar á vef HAFRÓ