fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjórðungur útfluttra sjávarafurða frá Íslandi fer til Bretlands

22. maí 2009 kl. 15:00

Sem fyrr er Evrópska efnahagssvæðið (EES) mikilvægasta markaðssvæðið fyrir íslenskar sjávarafurðir. Árið 2008 voru fluttar út þangað afurðir að verðmæti 135 milljarðar króna sem er 79% af útflutningsvirði sjávarafurða. Fjórðungur útflutningsins fór til Bretlands.

Þessar upplýsingar koma fram í gögnum frá Hagstofu Íslands. Verðmæti útfluttra sjávarafurða til EES-landa jókst um 33 milljarða króna eða 32,5% milli ára. Útflutningur til Asíu nam 10,8 milljörðum króna eða um 6,3% af heildarútflutningsvirði sjávarafurða. Útflutningur til Norður-Ameríku jókst um 20,5% frá 2007, var 9,6 milljarðar árið 2008 sem er 5,6% hlutdeild.

Bretland er mikilvægasta viðskiptalandið. Fluttar voru út vörur þangað fyrir 42,7 milljarða króna eða sem nemur 25% af útflutningsverðmæti 2008. Til Spánar voru seldar afurðir fyrir 15,7 milljarða eða sem nemur 9,1% útflutningsverðmætis. Þar á eftir komu Noregur, Holland, Bandaríkin og Portúgal.

Eins og fram hefur komið í fréttum jókst útflutningsframleiðsla sjávarafurða um 42,3% frá árinu 2007. Sé útflutningsframleiðslan hins vegar metin á föstu verði ársins 2004 er um samdrátt að ræða sem nemur 1,5%. Heildarverðmæti útflutningsframleiðslunnar á árinu 2008 nam 181 milljarði króna en útflutningur nam 171 milljarði króna.

Af einstökum afurðum jukust verðmæti ísaðra afurða um 37,3% en aukning í magni var 43,3%. Verðmæti frystra afurða jókst um 47,5% og aukning í magni var 1,8%. Framleiðsluverðmæti saltaðra og hertra afurða jókst um 16,6%, en magn dróst saman um 16,8%. Framleiðsluverðmæti mjöls og lýsis jókst um 67,6% og magn þeirra jókst um 4,6%.