mánudagur, 25. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjörur landsins eru matarkistur

16. júní 2017 kl. 18:08

Þörungar,

Þörungar gætu létt undir með að afla nauðsynlegrar fæðu fyrir heimsbyggðina

Ekki er loku fyrir það skotið að rauðþörungar, þar á meðal söl, gætu reynst mikilvægur próteingjafi í framtíðinni. Á vettvangi þekkingarfyrirtækisins Matís var það sérstaklega rannsakað hvort mögulegt væri að einangra  prótein úr sölvum og niðurstaðan er sú að ekki einungis er það gerlegt, heldur inniheldur þessi sjávargróður mörg þau lífsnauðsynlegu efni sem mannslíkaminn hefur þörf fyrir og væri þess vegna hagkvæmur sem próteingjafi í fæðu.

Málfríður Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Matís, vann rannsóknina sem meistaraverkefni sitt í matvælafræði við Háskóla Íslands, þar sem eitt markmiðanna var að einangra prótein úr sölvum sem gæti hentað í fæðu og þá til dæmis fyrir þá sem kjósa grænmetisfæði.

„Það liggur fyrir að þörfin fyrir öruggt framboð matvæla vex stöðugt samhliða fólksfjölgun. Á sama tíma leggja sífellt fleiri áherslu á heilnæmt mataræði og verndun umhverfisins, nýtingu náttúrulegra hráefna og sjálfbærni. Margir útiloka dýraafurðir og þess vegna er mikilvægt að finna nýjar uppsprettur matvæla, einkum próteingjafa sem inniheldur þær nauðsynlegu amínósýrur sem mannslíkaminn hefur þörf fyrir,“ segir Málfríður og bætir við að rannsóknin hennar er hluti af stærri norskri rannsókn sem ber nafnið PROMAC. Þeirra markmið er að rannsaka þörunga og möguleika til að nýta þá sem hráefni í fæðu eða fóður – og söl, sem tilheyra flokki rauðþörunga eru þar á meðal, en þau innihalda hátt hlutfall próteina af góðum gæðum.

„Verkefnið snérist um að finna leið til að aðskilja prótein og sykrur úr sölvum. Söl, eins og annar sjávargróður, innihalda sterkan frumuvegg sem gera útdrátt próteina erfiðan. Til þess að yfirstíga þessa hindrun er nauðsynlegt að brjóta þennan frumuvegg niður sem okkur tókst með hjálp ensíma. Rannsóknin staðfesti það sem er vitað var að sölin innihéldu prótein af miklum gæðum og inniheldur allar amínósýrur sem mannslíkaminn þarf,“ segir Málfríður.

Nýtt frá landnámi

Spurð um hvernig best er að nýta próteinin – ef hugsað er langt fram í tímann – þá segir hún að möguleikarnir séu margir og framhaldsrannsóknir muni leiða það í ljós. Hins vegar hafa aðrar rannsóknir Matís leitt í ljós að hægt sé að einangra ýmis efni úr þörungum sem megi nýta á margvíslegan hátt þar með talið í matvæli. Þörungaútdrættir eru notaðir í fæðubótarefni, eins og Frakkar og Írar hafa gert. Norðmenn sjá þörunga í samhengi við framleiðslu á lífrænu eldsneyti, svo dæmi séu nefnd.

„Það eru til aldagamlar heimildir íslenskar – í Egilssögu til dæmis – þar sem staðfest er að Íslendingar hafa nýtt söl allt frá landnámi. Kannski var það bundið við skort fólksins eða hallæri. Fólkið hefur örugglega vitað að neyslan kom í veg fyrir margvísleg vandamál, og þó það hafi ekki verið vitað þá hversu vítamínrík þau eru,“ segir Málfríður og bætir við að hægt sé að afla þessa hráefnis allt í kringum landið, þó eitt svæði sé ef til vill betra en annað.

„Þangið er alþjóðlega undir smásjánni – sjóðandi heitt viðfangsefni, má segja. Það er vegna þess hversu hægt er að nýta það á margan hátt,“ segir Málfríður og játar því að hugsanlega væri hægt að bjóða prótein úr þörungum sem fæðubótaefni í töfluformi eða bæta því út í mat.

Hvort mögulegt sé að vinna prótein úr þörungum í miklu magni, segir Málfríður það vel mögulegt en kostnaðarsamt. Eins er kílóverðið á sölvum í augnablikinu mjög hátt.

„Hins vegar er mögulegt að rækta þörungana, og í þessu norska verkefni er bæði verið að skoða villta þörunga og ræktaða,“ segir Málfríður.

Ónýtt matarkista

PROMAC verkefnið hverfist að vissu leyti um þá staðreynd að hafið hefur að geyma stærstu ónýttu matarkistu mannkyns, og því er mjög litið til þörungagróðurs sem uppsprettu fæðu. Þörungaiðnaður felur því í sér gríðarlega möguleika, er mat sérfræðinga og kemur fram á heimasíðu verkefnisins promac.no.

Matís hefur stundað rannsóknir á möguleikum þörungaiðnaðar í ýmsu samhengi. Haft hefur verið á orði að við Íslendingar sitjum á gullpotti án þess að gefa honum gaum. Mögulegt væri að hefja framleiðslu, en til þess að koma iðnaði á koppinn þarf fjárfesta til að nýta þá þekkingu sem er fyrirliggjandi og hins vegar rannsókna- og þróunarfé. En á meðan þessi auðlind er litin hornauga liggur hún áfram óhreyfð á fjörum landsins.

Greinin birtist í nýjustu Fiskifréttum. 

svavar@fiskifrettir.is