miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Flaggskip" Trefja afhent

10. desember 2009 kl. 11:00

Bátasmiðjan Trefjar ehf. í Hafnarfirði afhenti „flaggskip” sitt nýlega en um er að ræða 30 tonna smábát sem gerður verður út af Íslendingum í Noregi.

Ítarlega er fjallað um þennan bát í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag. Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Åsta B. Hann er 15 metra langur og 4,65 metra breiður og mælist 30 brúttótonn. Hann er að nýrri gerð, Cleopatra 50, og er stærsti og fullkomnasti bátur sem Trefjar hafa framleitt.

Kaupandi bátsins er útgerðarfélagið Eskøy AS í Tromsø í Noregi. Åsta B flokkast sem smábátur í Noregi þar sem hún er rétt innan við 15 metrana að lengd. Þetta er annar báturinn sem fyrirtækið fær afgreiddan frá Trefjum.

Í byrjun árs 2008 fékk útgerðin bátinn Saga K sem er af gerðinni Cleopatra 36. Eskøy AS er í eigu þriggja Íslendinga Bjarna Sigurðssonar, sem búsettur hefur verið í Noregi um áratuga skeið, og bræðranna Hrafns og Helga Sigvaldasona. Helgi hefur einnig búið í Noregi í nokkur ár og er norskur ríkisborgari eins og Bjarni. Helgi og Bjarni verða skipstjórar á nýja bátnum.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.