mánudagur, 25. mars 2019
 

Gert hlé á kolmunnaveiðum að sinni

Síldarvinnslan hefur tekið á móti 39.674 tonnum af kolmunna til vinnslu það sem af er vertíð. Til Neskaupstaðar hafa borist 26.544 tonn og til Seyðisfjarðar 13.130 tonn.

Breskir sjómenn sakaðir um stórfellt brottkast

Enginn undirmálsfiskur reyndist í aflanum. Talið að um 7.500 tonnum af smáþorski hafi verið hent í sjóinn við veiðar í Norðursjó á síðasta ári.

Sextíu prósent smábáta aðstöðulausir

Faxaflóahafnir gerðu skoðanakönnun meðal smábátaeigenda og gefa til kynna vilja til efla smábátaútgerð og bæta hafnaraðstöðu.

Neita að afhenda Herjólf – vilja aukagreiðslur

Vegagerðin hefur hafnað kröfum skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. sem gerir kröfur um viðbótargreiðslu þvert á alla samninga um lokaskil verksins og aukaverk. Vegagerðin hefur leitað ráðlegginga erlendra sérfræðinga á þessu sviði varðandi viðbrögð.

Myndi aldrei rúma mikið af þorski

Landgrunnið við Ísland er allt að hundrað sinnum stærra en landgrunnið við Jan Mayen. Vistkerfi landgrunnsins við Jan Mayen myndi því aldrei rúma þorsk í neinu magni sem nálgast það sem íslenska landgrunnið ræður við.

Merkingar á þorski hafnar á ný

Nú herma fréttir að íslenskur þorskur sé farinn að veiðast við Jan Mayen. Því er nauðsynlegt að merkingar séu stundaðar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast stöðugt með því hvort breytingar verði á fari þorsks við Ísland.


TölublöðVenjuleg útgáfa

Fleiri vilja á Bessastaði en í múrverk

Guðjón Guðmundsson
20. október 2018 kl. 10:53

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri mennta- og mannauðsmála hjá Samtökum iðnaðarins.

Samtök iðnaðarins vilja fjölga iðnmenntuðum á vinnumarkaði


Samtök iðnaðarins hafa mótað nýja stefnu samtakanna í menntamálum þar sem áhersla er á nauðsyn þess að efla iðnnám hér á landi. Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri mennta- og mannauðsmála hjá Samtökum iðnaðarins segir það áhugaverða tölfræði sem endurspegli íslenskt samfélag á einhvern hátt að fleiri treysti sér til þess að bjóða sig fram til forseta Íslands en kjósa að læra múrverk.

gugu@fiskifrettir.is

Grundvallarmarkmiðið sem hefur verið unnið að innan samtakanna er að fjölga iðnmenntuðum á vinnumarkaði. Flestir kannast við það úr sínu daglega lífi að miklum erfiðleikum getur verið bundið að fá iðnaðarmenn í verk og fyrirtæki innan Samtaka iðnaðarins hafa bent á að skortur á iðnaðarmönnum standi framþróun fyrirtækjanna fyrir þrifum. Um þennan vanda var fjallað í Fiskifréttum í síðustu viku.

Kerfislægur vandi

„Við höfum skoðað það sem við höfum nefnt kerfislægan vanda iðnmenntunar sem felst í stjórnsýslunni í kringum starfsmenntun  og hvernig grunnskólanemendum er falið það verkefni að finna sínar námsleiðir jafnvel of snemma og án mikillar snertingar við atvinnulífið. Við höfum líka velt upp þeirri ímynd sem er á iðnstörfum og námsleiðum sem þeim tengjast. Við erum talsvert á eftir nágrannaþjóðum okkar hvað varðar hlutfall þeirra sem velja starfsnámsleið á móti bóknámi. Nýju atriðin í stefnunni felast m.a. í því að ráðast að rót vandans sem margir vilja meina að liggi í grunnskólunum. Í allt of mörgum tilfellum fylgja skólarnir til að mynda ekki uppgefinni viðmiðunarstundaskrá í list- og verkgreinum. Áherslan á bóknámið er það mikil að nemendur fá hvorki kynningu né tækifæri til að snerta á verkgreinum. Ef við höfum efasemdir um að þetta geti skipt máli getum við ímyndað okkur hvernig það gengi að sannfæra börnin okkar um að það væri gaman að fara út að hjóla og kenna þeim hjólreiðar með bókinni. Það gengur náttúrulega ekki. Börnin verða að fá að snerta á hlutunum,“ segir Ingibjörg Ösp.

Samkvæmt viðmiðunarstundaskránni fyrir yngstu bekki grunnskóla á að verja einni af hverjum fimm mínútum í list- og verkgreinakennslu. Á unglingastigi er viðmiðunin einungis ein af hverjum tólf mínútum, það er mikilvægt að ekki sé dregið svo mikið úr vægi þessara greina þegar líður á námið, þvert á móti þarf að skoða betur hvernig við getum miðlað betur og upplýst um tækifæri sem bjóðast til náms og starfa.

Tíundi bekkur verði betur nýttur

„Það hefur komið í ljós að 70 og jafnvel 80% grunnskóla fylgja ekki viðmiðunarstundaskrá. Grunnskólanemendur fá því enn minni kennslu í þessum greinum. Það má segja að Náms- og starfsráðgjöf hafi verið vandamáladrifin hér á landi og snúist að miklu leyti um að greina frávik og námserfiðleika og starfsráðgjöfin hefur liðið fyrir það. Það er einsleitur hópur sem hefur sinnt starfsráðgjöf og er nánast eingöngu konur sem eru með akademískan bakgrunn. Okkur finnst að fleiri ættu að koma að því að sinna starfsráðgjöf og það þyrfti að opna upp, starfsráðgjöf verður að verða markvissari.“

Ingibjörg segir að það þurfi vitundarvakningu til þess að efla megi iðnnám á landinu. Hún segir margt benda til þess að það sé ekki rétti tímapunkturinn fyrir nemendur að velja framhaldsnám á lokaári grunnskólans miðað við kerfið eins og það er sett upp í dag. Hér fari valið fram ári fyrr en í mörgum nágrannalöndunum. Stór áhrifavaldur í vali nemenda á framhaldsnámi eru foreldrar en ekki síður jafningjahópurinn. Þar ráðist valið oft af því hvert vinahópurinn ætlar og hvar félagslífið er blómlegast, börn velja skólanna fyrst og svo nám.

„Í iðngreinanámi er alltaf grunnnám sem tekur yfirleitt eitt ár. Við teljum að það gæti verið æskilegt að nemendur lykju þessum grunni, þar sem lögð yrði meiri áhersla á starfsnám og kynningu á þeim leiðum sem eru færar, áður endanlegt val um framhaldsnám fer fram. Það er mikil umræða um það að tíundi bekkur grunnskóla sé ekki nægilega vel nýttur. Mikið sé um endurtekningar á fyrra námsefni og það gæti verið ein leiðin að nýta tíunda bekkinn betur fyrir kynningu á valgreinum og starfsnámi.“