sunnudagur, 22. apríl 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Flókin skipting loðnukvótans

16. febrúar 2017 kl. 09:55

Norska loðnuskipið Fiskebas landar loðnu á Fáskrúðsfirði á dögunum. (Mynd: Óðinn Magnason).

Norðmenn hafa tæpa viku til að veiða 22 þúsund tonn sem eftir er af kvóta þeirra

Skipting á heildaraflamarki í loðnu milli veiðiþjóða er nokkuð flókin. Hún tekur ekki aðeins tillit til samningsbundinnar hlutdeildar strandríkjanna þriggja sem skipta með sér kvótanum heldur blandast inn í dæmið Smugusamningur Íslands og Noregs, fiskveiðisamningur milli Íslands og Færeyja, samningar Noregs og ESB og loks samningar Grænlands og ESB.

Loðnukvótinn er í heild 299 þúsund tonn eins og fram er komið. Ísland fær í upphafi 81% af heildinni eða 242.190 þúsund tonn. Þar af dragast frá 31.165 tonn sem við látum Norðmönnum í té vegna Smugusamnings. Þá fá Færeyingar 14.950 tonn sem dragast af hlut Íslands. Eftir standa 196.075 tonn sem Íslendingar mega veiða. Þar af er úthlutað 182.683 tonnum til skipa með aflahlutdeild en 10.392 tonn fara í skipti á öðrum fisktegundum sem rata í pottana svonefndu, þ.e. byggðakvóta, strandveiðar o.fl.

Grænlendingar fá 11% af heildinni, eða 32.890 tonn. Grænlendingar láta svo ESB fá stóran hluta kvóta síns samkvæmt fiskveiðisamningi.

Norðmenn fá 8% af heildinni, eða 23.920 tonn til að byrja. Til viðbótar koma 31.165 tonn frá Íslendingum eins og áður er getið. Þá fá Norðmenn að minnsta kosti 4.389 tonn frá ESB af kvóta Grænlands. Samanlagt hafa Norðmenn tryggt sér 59.474 tonna aflaheimildir. Þar af hafa þeir veitt 37.219 tonn. Veiðum Norðmanna í íslenskri lögsögu á að ljúka 22. febrúar. Þeir hafa því tæpa viku til að veiða þau rúmu 22 þúsund tonn sem eftir standa.

Heildarkvóti Norðmanna gæti þó breyst því hugsanlega fá þeir eitthvað í sinn hlut í gegnum ESB af aukningu kvótans sem fellur Grænlendingum í skaut.