föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Formaður LÍÚ: Ríkisstjórnin setur allt í uppnám

11. maí 2009 kl. 12:25

framsetning fyrningarmálsins skapar gríðarlega óvissu

,,Mér finnst felast mikil mótsögn í því í stjórnarsáttmálanum að í öðru orðinu er sagt að skapa eigi sjávarútveginum bestu rekstrarskilyrði sem völ er á en í hinu orðinu að taka eigi aflaheimildirnar af fyrirtækjunum,” segir Adólf Guðmundsson formaður LÍÚ í samtali við Fiskifréttir.

,,Þá finnst mér mjög alvarlegt að þingflokkar stjórnarflokkanna skuli ekki hafa komið sér saman um neina útfærslu á því hvernig eigi að innkalla kvótann og því síður er hugað að því hvaða áhrif þetta muni hafa á fyrirtækin. Menn tala um samráð en samt hefur ekkert samráð verið haft við samtök útvegsmanna í þessu máli. Það er stóralvarlegt mál, að stjórnvöld skuli ætla að ganga gegn þeirri atvinnugreininni sem ætlað er að standa undir uppbyggingu íslensks samfélags og vera ein aðalgjaldeyrisuppspretta þess. Þetta er gert í fullkominni andstöðu við alla stjórnendur í greininni.  Framsetning málsins skapar gríðarlega óvissu. Við vitum til dæmis ekki hvaða áhrif það hefur á lánafyrirgreiðslu bankanna og þar með á fjárfestingar í greininni þegar allt er sett í uppnám,” sagði Adólf Guðmundsson.