fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frá Íslandi til "Litlu Reykjavíkur" í Noregi

31. desember 2009 kl. 08:45

Um 20 Íslendingar búa í norska bænum Leirfjord í Helgelandfylki í Noregi. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa flúið efnahagskreppuna á Íslandi og vinna hjá laxeldisfyrirtæki í bænum sem Íslendingur, sem búið hefur í Noregi í áraraðir, stjórnar.

Frá þessu er sagt á vefnum IntraFish. Þar kemur fram að í fyrstu hafi verið um einstaklinga að ræða sem komu frá Íslandi til Noregs en einnig hefur fjölskyldufólk flust til Leirfjord. Íslendingarnir halda mikið hópinn. Í einu fjögurra íbúða húsi eru allar íbúðirnar leigðar Íslendingum. Húsið hefur því hlotið nafnið „Litla Reykjavík“. Flestir Íslendinganna vinna eða tengjast fólki sem vinna hjá laxeldisstöðinni Leines Seafood.

Á IntraFish segir að varla hafi nokkurt land í hinum vestræna heimi farið eins illa út úr efnahgskreppunni og Ísland. Gert er góðlátlegt grín af okkur Íslendingum og bent á að ekki sé svo langt síðan að Íslendingar hafi ætlað að gera sögueyjuna að miðstöð fjármála í heimunum. En nú sé allt hrunið og við skuldum meira að segja margfaldar þjóðartekjur.

Hjá Leines Seafood vinna 130 manns. Framleiðslan er fersk laxastykki sem pakkað er í lofttæmdar umbúðir og fara á markað í Þýskalandi. Íslendingurinn Matthías Garðarsson  er meðeigandi í Leines Seafood og hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins til fjölda ára. Sonur hans tók við starfi hans í sumar.

Matthías Garðarson segir að Ísleningarnir sem vinna hjá Leines Seafood hafi mikla menntum á ýmsum sviðum og hafi flestir ekki reynslu af því að vinna í sjávarútvegi hér heima. Hann gerir sér grein fyrir því að hér sé aðeins um tímabundinn starfskraft að ræða.

Fram kemur á IntraFish að Íslendingarnir hafi tvöfallt hærra kaup í Noregi en þeir höfðu á Íslandi.