mánudagur, 18. febrúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frakkar uggandi vegna Brexit

19. júlí 2016 kl. 09:37

Fiskiskip í höfn í Frakklandi (Mynd: Nrodic Photos/ AFP)

Gætu misst 80% fiskveiðiréttinda sinna í Ermarsundi.

Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu hefur skotið frönskum fiskimönnum skelk í bringu. Franska fiskveiðinefndin metur það svo að franski fiskiskipaflotinn gæti misst upp undir 80% veiðiheimilda sinna í Ermarsundi ef breska lögsagan lokaðist fyrir veiðum þeirra. 

Þetta myndi kippa rekstrargrundvellinum undan fiskiðnaðinum í þessum hluta landsins. Héruðin Normandi, Bretagne og svæðið við hafnarborgina Calais yrðu sérstaklega hart úti. Samkvæmt núgildandi samningum mega frönsk skip fiska alveg inn að sex mílum frá strönd Bretlands en Bretar þurfa að halda sig utan 12 mílna frá Frakklandsströndum samkvæmt reglum ESB. Sem kunnugt er voru breskir fiskimenn ákafir stuðningsmenn þess að Bretar gengju úr ESB og breski sjávarútvegsráðherrann nefndi m.a. Ermarsund sem dæmi um svæði þar sem hallaði á Breta í fiskveiðisamningum ESB. 

„Ef við fáum ekki að veiða í breskri lögsögu þýðir það endalok fiskiðnaðar í Boulogne,“ segir einn forstjóra fiskvinnslufyrirtækis þar í borg í samtali við breska blaðið The Telegraph, en Boulogne er stærsta fiskihöfn Frakklands. 

Aðeins um 20% fiskveiðiflota Frakka veiðir utan lögsögu Frakklands en þessi floti landar um þriðjungi heildaraflans.