fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framleiða 100.000 fiskiker á ári í þremur verksmiðjum

Guðjón Guðmundsson
31. mars 2018 kl. 06:00

Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Sæplasts, við i-Tub ker, dótturfélag Sæplasts sem rekur keraleigur á Íslandi, Noregi og Danmörku. MYND/GUGU

Sjá mikla möguleika í tvíburakerinu

Sæplast á Dalvík framleiðir um 50 þúsund fiskiker á ári og verksmiðjur fyrirtækisins á Spáni og Kanada annað eins. Fyrirtækið hefur þróað nýja gerð kera sem gæti haft mikil áhrif til þess að draga úr kostnaði við bakafragt.

„Þetta er skemmtileg stærð og tegund af fyrirtæki inn í bæjarfélag eins og Dalvík. Við mönnum stöðurnar mest af heimamönnum en það koma líka starfsmenn frá Ólafsfirði og Akureyri,“ segir Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Sæplasts.

Daði er fæddur og uppalinn á Dalvík en bjó um tveggja ára skeið í Reykjavík og stundaði auk þess nám í verkfræði í Álaborg í Danmörku. Að námi loknu hóf hann störf hjá Sæplasti sem framleiðslustjóri.

Fyrirtækið er stofnað af heimamönnum árið 1984; framsýnum mönnum sem vildu renna styrkari stoðum undir atvinnulífið á staðnum. Sæplast fékk fljúgandi start en um það leyti sem það var stofnað var umfangsmikill útflutningur á heilum fiski frá landinu með tilheyrandi þörf fyrir umbúðir. Núna starfa um 65 manns í verksmiðjunni á Dalvík og veltan á síðasta ári var um 1.600 milljónir króna.

Styttri löndunartími

„Það var mikil hagræðing fólgin í því að hafa fiskinn frekar í kerum en kössum. Það stytti til muna löndunartímann og þann tíma sem tók að lesta gáma. Á þessum árum voru ólympískar veiðar þannig að miklu máli skipti að stytta löndunartímann. Keravæðingin hófst fyrst fyrir vestan og á stuttum tíma var plastkössum útrýmt úr flotanum og notkun kera varð almenn,” segir Daði.

Sæplast tók einnig þátt í keravæðingu sem hófst í Færeyjum á árunum 2003-2009. Þar fóru menn einnig úr 70 lítra kössum í 460 lítra ker. Talsverð framþróun hefur verið í keraframleiðslu Sæplasts. Á sínum tíma voru kerin 660 lítrar en þau þóttu setja of mikla pressu á hráefnið. Við tók lægra ker, 460 lítra. Einnig hefur Sæplast þróað enn lægra ker, 340 lítra, sem var sérstaklega hannað fyrir viðskiptavini í Suður-Afríku sem gera út á hake sem er viðkvæmur fiskur í meðhöndlun.

„Þá höfum við líka tekið þátt í því að koma hluta af norska flotanum upp á það að nota ker. Það verkefni er núna yfirstandandi. Þar í landi hófst keravæðingin ekki fyrr en upp úr 2010.”

Keravæðingin er langt komin í norska togaraflotanum en þar eru ennþá fjölmargir ferskfiskbátar sem ekki nota ker. Daði segir að ennþá séu tækifæri fyrir Sæplast í Noregi. 2010 stofnaði Sæplast keraleigu þar í landi sem heitir iTub í samstarfi við norska aðila. Einblínt var á norska markaðinn fram til 2015 þegar opnaðar voru keraleigur í nafni iTub á Íslandi og Danmörku.

Frá 2015 hefur Sæplast verið dótturfyrirtæki breska félagsins RPC-Group. RPC er framsækið alþjóðafyrirtæki á sviði plastframleiðslu sem rekur tæplega tvö hundruð verksmiðjur víða um heim.

 70-80% til útflutnings

Verksmiðjan á Dalvík byggir afkomu sína að mestu leyti á útflutningi. 70-80% allrar framleiðslunnar er flutt út. Íslenskur markaður er leiðandi og kröfuharður á sínar lausnir og aðrar sjávarútvegsþjóðir leita fyrirmynda hér á landi. Þannig hefur Sæplast nýtt sér stöðu sína á Íslandi til að sannfæra erlenda viðskiptavini um ágæti vörunnar. 60-70% allrar keraframleiðslunnar fer til sjávarútvegsfyrirtækja en matvælaiðnaður af ýmsu tagi tekur 30-40% framleiðslunnar.

Daði segir það visst vandamál hve lengi kerin endast því það setur eftirspurninni ákveðnar skorður. Sæplast gefur upp að endingartíminn sé 10-12 ár en mörg dæmi eru um að viðskiptavinir fyrirtækisins séu enn að nota ker sem eru komin vel á þrítugsaldurinn.

„En oft er nýtingin fram úr hófi og þá um leið er tekin áhætta í öryggismálum, bæði hvað stöflun og hífingu karanna, og líka jafnvel hvað varðar matvælaöryggi.“

Daði segir endurnýjarþörfina í Norður-Evrópu vera orðna mikla og hún aukist að með hverju ári. „Eftir því sem árin líða verður endurnýjunarþörfin stöðugri. Það eru minni sveiflur hjá okkur núna en fyrir 15-18 árum. Markaðurinn er þroskaðri og svo erum við líka í viðskiptum við fyrirtæki sem eru að vaxa og dafna og þurfa fleiri ker.“

Í verksmiðjunni á Dalvík eru framleidd um 50 þúsund ker á ári. Til viðbótar er fyrirtækið með verksmiðjur á Spáni og Kanada og heildarframleiðslan á ári er um 100 þúsund ker. Vörulínan er allt frá 50 lítra kæliboxum og 70 lítra kerum með lausu loki sem notuð eru m.a. í smábátaflotanum upp í 460 lítra ker. Einn stærsti sölusamningur Sæplasts til þessa var sala á 70 lítra kerum til smábátaflotans í Marokkó sem stundar veiðar á smokkfiski á opnum trébátum. Mörg þúsund bátar stunda þessar veiðar og Sæplast seldi að meðaltali þrjú kör í hvern bát sem framleidd voru í verksmiðjunni á Spáni.

Vörumerkið í útlöndum er Sæplast, skrifað upp á íslensku. Daði segir að það hafi ekki valdið vandamálum og vörumerkið er þekkt í þeim geirum sem fyrirtækið vill sinna.

Daði segir að við innleiðingu kera í fiskiskipaflotann hafi hráefnisgæði aukist – hægt sé að hafa stærri fisk sem fer betur um í kerunum, kælingin er betri og framleiðniaukning varð með styttri löndunartíma. Nú sé landað úr skipum á nokkrum klukkustundum sem áður tók jafnvel nokkra daga. Kerin hafi einnig átt sinn þátt í þeim miklu fiskflutningum milli landshluta og milli landa sem nú tíðkist.

 Hagkvæmni í bakfragt

Sæplast hefur kynnt nýja gerð umbúða sem kallast tvíburaker. Kerið er í þróun í samstarfi við íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki. Þar er útgangspunkturinn aukin hagkvæmni í bakfragtinni. Daði tekur sem dæmi óhagræðið sem er af fiskflutningum í plastkössum í Noregi með bílum suður til Evrópu því afar kostnaðarsamt er að flytja kerin tóm aftur til Noregs. Tvíburakerin eru þannig gerð að þau staflast ofan í hvert annað og þannig næst mun meira magn af kerum í hvern bíl í bakfragtinni.

Tvíburakerið fékk önnur verðlaun fyrir athyglisverða nýjung á Sjávarútvegsráðstefnunni síðastliðið haust. Fyrsta frumgerð hefur verið prófuð og nú er verið að setja lokahnútinn á endanlega framleiðslugerð. Daði segir meiri tækifæri á sölu á tvíburakerum erlendis en innanlands.