þriðjudagur, 22. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framleiða um 40 flottroll á ári

Guðjón Guðmundsson
15. janúar 2018 kl. 08:39

Verið var að leggja lokahönd á troll fyrir kóreskan togara hjá Tor-Net í Hafnarfirði. MYND/GUGU

Utanlandsmarkaður um 85% allrar sölu Tor-Net

Tor-Net framleiðir að jafnaði um 40 flottroll af ýmsum gerðum á ári og utanlandsmarkaður er um 85% af allri sölunni. Fyrirtækið er með starfsstöðvar í Hafnarfirði, Las Palmas á Kanaríeyjum og vöruhús í Marokkó. Alls starfa um 20 manns hjá Tor-Net, þar af sjö í Hafnarfirði.

Við mæltum okkur mót við Victor Strange, eiganda fyrirtækisins ásamt eiginkonu sinni Önnu Berglindi Arnardóttur, sem jafnframt er fjármálastjóri fyrirtækisins, og Henning Henningsson framkvæmdastjóra. Niðri á gólfi voru Ármann Helgason, Bergþór Þorsteinsson og Ólafur Erlendsson að hnýta flottroll sem kínverskt útgerðarfyrirtæki hafði pantað og verður notað um borð í kínverskum togara við veiðar á Alaskaufsa í rússneskri lögsögu. Þannig er leiksviðið hjá Tor-Net.

Tilurð fyrirtækisins má rekja til veru Victors um borð í Betu sem gerð  var út af Sjólaskipum til veiða á hrossamakríl úti fyrir ströndum Máritaníu í lok níunda áratugar síðustu aldar.

Á hrossamakríl við Máritaníu
„Ég er náttúrulega bara sjóari og byrjaði að hanna veiðarfæri til sjós. Þá var ég á Betunni niðri í Máritaníu og það var fyrsta skipið sem Sjólaskip sendu þangað suður. Veiðarnar gengu svona og svona en þegar við höfðum hannað almennilega veiðarfæri fór að verða betri gangur í veiðunum. Við vorum í djúpu vatni þar sem engir höfðu verið að veiða. Við rótfiskuðum innan máritanskrar lögsögu með öll leyfi í lagi.“

Um borð í Betunni voru veiðarfæri sem hentuðu ekki alveg nógu vel og Victor hannaði og bjó til um borð nýtt troll með sexkant möskvum og hannaði auk þess nýja tegund af straumpoka. Trollið var kallað 1440 troll og þá fóru veiðarnar að ganga alveg glimrandi vél.

Í upphafi Tor-Nets fékk fyrirtækið lánað netaverkstæði Sjólaskipa og þá voru einungis Victor og Anna Berglind að vinna við veiðarfæragerðina. Þau náði að safna sér í sjóð sem var notaður til þess að gera líkan af 1440 trollinu og fóru með það í tank í Hirtshals í Danmörku.

Sjötti í röðinni
„Við vildum sjá nákvæmlega hvernig það virkaði þetta troll sem við höfðum hannað og verið að selja. Þegar ég mæti með trollið í tankinn er mér sagt að ég sé númer sex í röðinni til að prófa nákvæmlega þetta troll. Í ljós kom að menn höfðu orðið sér úti um teikningar og látið gera líkan af trollinu mínu. Ég var síðastur allra til að fá að prófa mitt eigið troll,“ segir Viktor og hlær.

Tor-Net í Hafnarfirði er núna í 700 fermetra húsnæði í Hvaleyrarholti í Hafnarfirði. Þar eru framleidd troll fyrir innlendan markað, Alaska, Suður-Ameríku og Kína og þar sinnir fyrirtækið þjónustu og viðgerðum fyrir íslenska flotann. Þar fer líka öll hönnun og nýsköpun fram.

Troll fyrir 500-20.000 hestafla skip
Í Las Palmas er umtalsvert stærra netaverkstæði sem sinnir mest Afríkumarkað. Samtals framleiðir Tor-Net yfirleitt nálægt 40 trollum á ári á báðum stöðum.

„Við framleiðum flottroll fyrir skip með 500 og upp 20.000 hestafla vélar og trollgerðirnar skipta tugum. Við höfum framleitt troll fyrir veiðar af margvíslegum toga út um allan heim. Við seljum troll til Seattle til veiða á Alaskaufsa, troll til veiða á makríl og gulldeplu í Suður-Ameríku en líka til Afríku, Kína, Kóreu, Rússlands, Hollands, Færeyja og eiginlega út um allan heim,“ segir Viktor.

Örmarkaður á Íslandi
Hann segir heimamarkaðinn í raun örmarkað sem dragist sífellt saman. Skipunum fækki og þau stækki. Einnig hafi makrílveiðar hér við land þjappast saman á uppsjávarskipin en í upphafi hafi skuttogarar líka verið við þær veiðar. Henning bætir við að skipin færist líka í hendur færri eigenda sem samnýti veiðiheimildir og veiðarfærin og þetta sé eðlileg hagræðing og þróun.

„Við sækjum stöðugt á erlenda markaði og það gerist eingöngu með góðu tengslaneti og að hitta menn augliti til auglitis. Síðan þarf að hamra járnið meðan það er heitt en það tekur oft langan tíma að koma á svona viðskiptasamböndum á fjarlægum mörkuðum,“ segir Henning framkvæmdastjóri.

Victor segir að ekki megi heldur vanmeta þann þátt að þegar einum gengur vel við veiðar spyrjist það út hvaða veiðarfæri þeir eru að nota. Þannig hafi líka orðið til viðskipti.

Frá því Tor-Net hóf starfsemi árið 2002 hefur það framleitt svokallaða straum-poka sem bjóða upp á gott streymi í gegnum veiðarfærið. Með straum-pokanum er sjónum sem berst inn í pokann beint aftur í pokann. Mælingar hafa sýnt að fiskurinn skilar sér 20-25% hraðar aftan í straum-pokann en í hefðbundinn poka.