miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framleiðir vinnsludekk í fjögur ný skip

Guðjón Guðmundsson
30. desember 2018 kl. 14:00

Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri Micro, við nýju beygjuvélina. MYND/GUGU

Micro í Garðabæ í miklum vexti.

Starfsemi iðntæknifyrirtækisins Micro hefur sprengt utan af sér í Suðurhrauni í Garðabæ og verkefnastaðan er vægast sagt góð. Í gegnum tíðina hefur fyrirtækið sinnt margskonar verkefnum, allt frá hönnun og smíði eigin búnaðar, uppsetningum og viðhaldi fiskiskipa ásamt því að smíða í verktöku fyrir önnur fyrirtæki. Í seinni tíð hefur áherslan á framleiða  eigin lausnaaukist, eins og drekinn, sem er blóðgunar- og kælilausn sem hefur mælst afar vel fyrir innan geirans. 

Samstarf Micro og Skinneyjar-Þinganess hefur verið farsælt og smíðar Micro nú vinnslubúnað í tvo nýja togbáta fyrirtækisins sem eru í smíðum í Noregi auk tveggja togbáta Gjögurs og nýstárlegan búnað sem snýr að humarvinnslu í Þóri SF og Skinney SF, sem eru í breytingum í Póllandi.

Gunnar Óli Sölvason var ráðinn framkvæmdastjóri Micro um síðustu áramót. Hann hafði áður starfað um nokkurra ára skeið sem hönnuður hjá Marel og í millitíðinni að verkefni hjá sprotafyrirtæki. Þegar honum bauðst framkvæmdastjórastaða hjá fyrirtækinu þurfti hann ekki að hugsa sig um tvisvar. Hann sá mikil tækifæri í helstu framleiðsluvöru Micro og vildi vera með í hóp sem stefndi fram á við, jafnt innanlands sem á erlendum mörkuðum, með nýstárlegar lausnir fyrir sjávarútveginn.

Micro var stofnað árið 1996 í Súðarvogi og fluttist þaðan í Dugguvog og Vesturvör áður en fyrirtækið fór í iðnaðarhverfið við Suðurhraun í Hafnarfirði um síðustu aldamót. Þar er það á 800 fermetra gólffleti með leiserskurðarvél fyrir ryðfrítt stál og fjárfesti jafnframt nýlega í beygjuvél. Það er því orðið sjálfbært að flestu leyti til eigin framleiðslu en hafði áður keypt skurð og beygingu af öðrum fyrirtækjum.

Fyrirtækið hefur stækkað mikið og þarf að komast í stærra húsnæði. Það hefur þess vegna gert samning um kaup á húsnæði á Völlunum í Hafnarfirði. Nánast öll starfsemin felst í smíðum á tækjum og búnaði úr ryðfríu efni. Þar starfa öflugir suðumenn og aðrir fagmenntaðir iðnaðarmenn.

Drekinn

Upphaf starfsemi Micro má rekja til þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki. Ennþá er sá þáttur stór. Micro hefur sinnt viðhaldsþjónustu og smíði fyrir Ögurvík, HB Granda, Brim og Samherja áður fyrr ásamt fleirum. Þá sinnti það umfangsmiklu viðhaldi fyrir rækjuflotann þegar rækjuveiðar stóðu hvað hæst. Micro hefur líka verið í miklu samstarfi við Marel og verið undirverktaki hátæknifyrirtækisins um nokkurt skeið. Einnig hefur fyrirtækið verið í samstarfi við aðra framleiðendur eins og Skagann 3X og Völku.

„Hægt og rólega hefur byggst upp þekking innan fyrirtækisins. Með miklu samstarfi við útgerðina og mikilli snertingu við skipin hefur þessi þekking byggst upp. Oft koma upp tilvik þar sem við þurfum að bregðast skjótt við með sértækar lausnir. Við erum með stuttar boðleiðir og getum brugðist hratt við. Starfsemin þróaðist í þá átt að við fórum að smíða meira af eigin vörum. Fyrir um það bil sex árum kynntum við drekann, blæði- og kælingarkar fyrir bolfisk sem síðan hefur verið okkar helsta framleiðsluvara. Drekinn hefur þann kost að hann getur gengið í báta af hvaða stærð sem er. Sandfell, sem var aflahæsti smábátur landsins á síðasta kvótaári, er með dreka sem er rétt rúmir tveir metrar. Í bátum Gjögurs og Skinney-Þinganes verða drekar sem eru upp í 6-8 metrar,“ segir Gunnar Óli.

Verkefnum af þessu tagi fylgja oft fleiri verk og fyrr en varði hafði Micro smíðað heil vinnsludekk fyrir Gjögur og Skinney-Þinganes. Gott samstarf komst á milli fyrirtækjanna í kjölfar þessa. Þegar útgerðarfélögin höfðu samið um nýsmíði á fjórum skipum hjá Vard skipasmíðastöðinni í Noregi var samið við Micro um smíði á vinnsludekkjunum.

Slegist um málmiðnaðarmenn

„Smíði á vinnsludekkjum í fjögur skip er ærið verkefni fyrir ekki stærra fyrirtæki. Og þessu til viðbótar erum við að hefja smíðar á búnaði í Skinney SF og ÞóriSF, sem eru núna í lengingu í Gdynia.  Verkefnastaðan  er því þétt fyrir árið 2019 og fram á árið 2020. Að jafnaði vinna um 20 manns hjá okkur. Það sem hefur verið okkur mótdrægt er að gengið hefur treglega að fá málmiðnaðarmenn til starfa. Fyrir skömmu auglýstum við eftir málmiðnaðarmönnum og fengum í fyrsta sinn engin viðbrögð við auglýsingum. Það er mikil eftirspurn eftir þessum starfskrafti og nokkur öflug, íslensk fyrirtæki sem keppast um þá fáu málmiðnaðarmenn sem eru á lausu. Það eru fáir í iðnámi og málmiðnaðargreinarnar virðast standa þar verst að vígi. Við réðum í fyrsta sinn erlenda málmiðnaðarmenn í gegnum ráðningaþjónustu. Það hefur gengið vel og við munum hugsanlega fara þessa leið aftur. Ef við hefðum ekki þennan möguleika og við fengjum ekki suðumenn þá myndi það hamla vexti fyrirtækisins,“ segir Gunnar Óli.

Þetta er bagalegt þegar verkefnin hrannast upp. Auk góðrar verkefnastöðu innanlands þá hafa áhugasamir aðilar erlendis haft veður af lausnum Micro og sett sig í samband. Þar á meðal er útgerðarmaður í Ástralíu sem veiðir litríka heitsjávarfiska sem seldir eru óunnir á markað í Japan. Hann sótti sjávarútvegssýninguna í fyrra og sá þar drekann. Hans vandi er sá að hann veiðir í 26-32 gráðu heitum sjó og sá strax að drekinn myndi henta honum fyrir kælingu.

Sjálfvirkni og greining

Sérfræðingar hjá Matís hafa mikið rannsakað blæðingu og kælingu á fiski. Niðurstaða þessara rannsókna eru þær að fiskur ætti alltaf að vera kominn í blæðingu innan við 30 mínútum eftir að hann kemur úr sjó og blæða að lágmarki í 15 mínútur í 350 lítrum af sjó fyrir hvert tonn afla. Þetta var haft að leiðarljósi þegar drekinn var þróaður hjá Micro. Gunnar Óli segir drekinn henti ekki síst fyrir saltfiskframleiðendur. Micro gerði úttekt á þessu í samstarfi við Skinney-Þinganes. Magn fisks sem fer í efsta gæðaflokk saltfisks, flokk A og B, jókst verulega eftir að Skinney-Þinganes fór að nota dreka í sínum bátum.

Staðalstærð á dreka er 6x1,2 metrar en ólíkt öðrum kerfum er allt rúmmál hans virkt. Ný útfærsla af drekanum er hryggjarstykkið í vinnslubúnaðinum í nýsmíði Skinney-Þinganess og Gjögurs. Í nýju skipunum verður einnig meiri sjálfvirkni en í fyrri kerfum fyrirtækisins og greining sem byggir á stýrihugbúnaði frá Völku. Þannig verður bolfiskurinn flokkaður eftir tegundum og stærð. Til að spara pláss var við hönnun nýju bátanna tekið frá rými milli vélarrúmsins og lestarinnar. Þannig er hægt að vinna jafn mikið af afla á mun minna svæði en áður hefur þekkst. Drekinn er reistur upp á endann og fer ofan í þetta rými. Með þessu móti stendur einungis um metri af honum upp úr þilfarinu og hann gengur ekkert á lestarrýmið. Öll fjögur nýsmíðaskipin verða með þessu fyrirkomulagi.

Minna skelbrot

Annað verður upp á teningnum með Skinney SF og Þóri SF sem verða gerð út á bolfisk og humar.  Segja má að humarveiðar og vinnsla byggi á gamalli tækni sem þróast hefur með samfelldum endurbótum á síðustu áratugum.  Micro og Skinney-Þingenes hafa með nánu þróunarsamstarfi hannað nýja vinnslulínu í humarskip frá grunni.  Í samstarfinu var litið frá úrbótum á eldri hugmyndafræði og beitt nánu vel skilgreindum nýsköpunarferlum til að ná fram verulegri umbyltingu í meðferð á bæði humri og meðafla.  Síðast liðið sumar var Skinney SF svo útbúin frumgerð nýrrar vinnslulínu í tilraunskyni.  

Niðurstöður þeirra tilrauna hafa staðfest virkni þeirrar hugmyndafræði sem lagt var upp með.  Nánast 100% aðgreining næst á milli humars og bolfisksins. Í prófununum sem hafa verið gerðar varð mikil aukning á heilum humri sem skilaði sér í land. Við uppsetningu nýrra vinnslulína í humarskipunum tveimur verð svo næsta skref tekið þar sem humrinum verður raðað í litlar geymslueiningar uppi á dekki og komið þannig fyrir í lest. Fram til þess hefur honum verið landað í körum. Óhjákvæmilega var ávallt talsverður sjór í körunum og þess vegna talsverðir landflutningar á sjó, til dæmis milli Hornafjarðar og Þorlákshafnar, þar sem humarinn er unninn. Með þessu móti dregur úr kostnaði við landflutninga og jafnframt úr kolefnisfótsporinu auk þess að skelbrot minnkar við geymslu í minni einingum.

Micro,  í samstarfi við Skinney-Þinganes og Matís, fékk úthlutaðan styrk frá Tækniþróunarsjóði til að þróa markaðsefni og greina markaðstækifæri erlendis fyrir drekann. Markmiðið er að útbúa betri sölugögn og ítarlegri gögn sem sýna kosti vörunnar. Í framhaldinu er ætlunin að hefja markaðssókn erlendis. Verkefnið er sett upp til tveggja ára.