mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyjar: Hæsta sektin fyrir fiskveiðilagabrot

4. september 2008 kl. 09:36

Það varð franska togaranum Bruix dýrkeypt að veiða ólöglega í færeyskri lögsögu. Í heild var útgerðinni gert að borga jafnvirði 20 milljóna íslenskra króna.

Varðskipið Hvidbjörnen stóð Bruix að veiðum í færeyskri lögsögu í febrúar á síðasta ári en franska skipið hafði ekki leyfi til að veiða þar.

Í byrjun var skipstjórinn reiðubúinn að fylgja varðskipinu til hafnar en eftir að útgerðarmaðurinn gaf fyrirskipun um hið gagnstæða lagði skipið á flótta inn í breska lögsögu. Því tókst að landa afla sínum í Ullapool í Skotlandi og forða honum á brott í kæligámum en farmurinn var kyrrsettur við ensku landamælin.

Svo fór að lokum að útgerðin samþykkti sektarkröfu saksóknarans og kom málið því ekki fyrir rétt. Sektin fyrir veiðibrotið og að hlýða ekki fyrirmælum varðskipsins nam tæpum fjórum milljónum íslenskra króna, sem er hæsta sekt sem úrskurðuð hefur verið fyrir fiskveiðilagabrot í Færeyjum fram að þessu.

Að viðbættri upptöku afla og veiðarfæra nam heildarsektin jafnvirði 20 milljóna íslenskra króna eins og áður sagði.