mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyskar makrílveiðar byrjuðu sem meðafli

30. ágúst 2009 kl. 11:00

Kvóta Færeyinga á makríl má rekja til þess að makríll kom á sínum tíma sem meðafli á kolmunnaveiðum færeyskra skipa, rétt eins og makríll er meðafli á síldveiðum við Ísland í dag. Meðaflinn jókst smám saman og var orðinn um 18% áður en samþykkt var að úthluta Færeyingum makrílkvóta fyrir tíu árum eða svo.

Þetta kom fram í samtali Fiskifrétta við Hjalta i Jákupsstovu, forstjóra færeysku hafrannsóknastofnunarinnar. Hann sagði að hlutur Færeyinga í heildarmakrílkvótanum í NA-Atlantshafi væri 5,5% eða í kringum 30 þúsund tonn miðað við úthlutunina í ár. Færeysku skipin veiddu makrílinn í lögsögum Noregs og Evrópusambandsins.

Hjalti var spurður hvort Færeyingar væru reiðir Íslendingum vegna makrílveiða þeirra, eins og norskir hagsmunaaðilar væru, og svaraði hann því neitandi. Hins vegar væru færeyskir hagsmunaaðilar þeirrar skoðunar að Færeyingum bæri aukinn hlutur í heildarkvótanum.

Hjalti benti hins vegar á að um helmingur af aflaverðmæti Færeyinga kæmi af veiðum utan færeyskrar lögsögu. Færeyjar væru með gagnkvæma fiskveiðisamninga við mörg ríki svo sem Noreg, Rússland og ESB-löndin. Þar af leiðandi væri ávallt viðkvæmt mál að setja fram kröfur á einu sviði veiða því það gæti haft áhrif á samninga um aðrar veiðar.