fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gætu sparað stórfé á ufsaafskurði

5. mars 2018 kl. 17:01

Snjókrabbi.

Norðmenn búast við að snjókrabbaveiðar í Barentshafi muni margfaldast á allra næstu árum.

Því er spáð að innan fárra ára verði snjókrabbaveiðar og vinnsla orðin mikilvæg stærð í norskum sjávarútvegi með tugmilljarða veltu. Á sama tíma virðist lítil uppfinning norsks útvegsmanns ætla að reynast stærri en von var á, eða „krabbabeitusokkur“ sem gæti sparað stórfé við veiðarnar og auðveldað handtökin um borð í krabbaveiðiskipunum verulega.

Nofima - Rannsóknarstofnun norska matvælaiðnaðarins segir frá manni nokkrum – Arild Giske, útgerðarmanni í Álasundi sem framleiðir saltfisk (klipfisk). Hann varð þess snemma áskynja að við vinnsluna var ekki nokkurt einasta mál að selja dálkinn úr þorskinum, sem fellur til eftir að hann hefur verið flattur. Annað á hins vegar við um dálkinn úr ufsanum. Slegist var um þorskdálkinn í Asíu, ekki síst í Kína og Víetnam, en enginn kærir sig um að kaupa það sem fellur til af ufsanum.

Þetta ýtti við Arild, sem í nokkur ár velti því fyrir sér hvernig mætti nýta þetta hráefni sem enginn kærði sig um. Þessar pælingar leiddu á endanum til þess að hann var kominn á þá skoðun að ufsadálkurinn væri til fárra hluta nytsamlegur en gæti kannski sloppið sem krabbabeita. Sjálfur hafði hann unnið á krabbaveiðibát frá Alaska, en mundi að erfiðasta og tímafrekasta verkið um borð var að beita gildrurnar. Þarna fæddist sú hugmynd að skera ufsadálkana niður og þeim troðið í einskonar bómullarsokk eða net, svo úr varð ekki ósvipað fyrirbæri og úrbeinað hangikjöt, sem vafið er í rúllu og net sett utan um áður en það er reykt. Þessari rúllu mátti svo koma fyrir í krabbagildrunni til að freista snjókrabbans.

Umhverfisvænt ofan í kaupið

Hugmyndin var kynnt fyrir vísindamanninum Sten Ivar Siikavuopio hjá Nofima í Tromsö. Þar hittu menn vel á vondan því Siikavuopio hafði allt frá því árið 1994 lagt stund á rannsóknir á hvaða beita hentaði best til veiða á kóngakrabba – annarrar krabbategundar sem nú fæst í töluverðu magni innan lögsögu Noregs. Hans niðurstaða var þá þegar að ufsi hentaði best til að beita krabbagildrur.

„Þegar ég sá upprunalegu hugmyndina leist mér strax vel á, enda notast við bómull en ekki plastefni. Þannig er hægt að komast hjá því að veiðar á snjókrabba bæti á vandann sem plastmengun í heimshöfunum er orðin,“ segir Siikavuopio í viðtali í frétt Nofima. Nú þegar hefur það verið staðfest með tilraunaveiðum að aðferðin til að beita ufsadálkum fyrir krabba er gjöfulli en þær sem hingað til hafa verið notaðar til veiðanna.

Ódýrara og auðveldara

Sannreynt hefur verið að „sokkurinn“ með ufsadálkunum dugar í allt að eina viku í krabbagildrunum. Síldarbeitan þolir ekki svo langan tíma enda krabbinn veiddur á töluvert miklu dýpi og síldarbeitan þolir ekki þrýstinginn sem því fylgir.

Þá hefur smokkfiskur verið notaður mikið sem beita fyrir krabba. Hann er veiddur á suðrænum slóðum og fluttur inn frá Argentínu, og kostar allt að því 23 norskar krónur kílóið – eða tæplega 300 krónur íslenskar. Ufsabeitan kostar rúmlega helmingi minna.

Hingað til hafa krabbagildrurnar verið beittar þegar á miðin er komið og beitan þá skorin niður frosin. Um borð í krabbaveiðibátunum eru allt að 9.000 gildrur og oft skítakuldi á miðunum. Þetta útheimtir allstóra áhöfn öfugt við það þegar ufsabeitan er tekin um borð tilbúin í gildruna. Þá er einnig verið að rannsaka hvort beitan mætti vera söltuð en ekki frosin sem myndi enn og aftur spara töluverðan kostnað við veiðarnar.

Mikill vöxtur áætlaður

Menn binda miklar vonir við þessa nýju aðferð enda tekur hver krabbabátur um 40 tonn af beitu í hverja veiðiferð í Barentshafið. Nú er kvóti Norðmanna 4.000 tonn, og Rússar veiða 10.000 tonn innan sinnar lögsögu. Þessi veiði er talin muni margfaldast innan fárra ára, en það var ekki fyrr en 1996 sem krabbinn fannst í Barentshafi og er sú tegund sem hraðast vex.

Í skýrslu norskra sérfræðinga frá árinu 2016 var snjókrabbinn kallaður „nýstirni í norskum sjávarútvegi“ sem gæti skapað mikil verðmæti.

Ekki er langt síðan norsk skip hófu tilraunaveiðar á snjókrabba í Barentshafi, en á árinu 2015 fékkst sæmileg reynsla af þessum veiðum á ársgrundvelli. Þá strax varð vart við snjókrabba í vaxandi mæli norður af Noregi og hefur hann fundist allt norður að Svalbarða.

Samkvæmt spá skýrsluhöfunda gæti hugsanleg veiði á sjókrabba orðið 50 þúsund til 170 þúsund tonn á næstu 15 árum. Meðalverð er áætlað um 30 norskar krónur fyrir kílóið sem gæti þetta þýtt um 1,5 til 5,1 milljarð í aflaverðmæti eða 19 til 65 milljarða íslenskar krónur að núvirði. Rætist þessi spá gæti  umsetning í norskum sjávarútvegi aukist um 6 til 22%, segja skýrsluhöfundar.

50 sinnum meira

Í skýrslunni eru bornar saman veiðar á snjókrabba og kóngakrabba. Kóngakrabbi er mun stærri og er fluttur út ferskur í vaxandi mæli. Gert er ráð fyrir að afli snjókrabba verði 50 sinnum meiri en kóngakrabba. Ólíkt snjókrabbaveiðum við Kanada og Bandaríkin, þar sem snjókrabbinn lifir nálægt landi, heldur snjókrabbinn sem Norðmenn veiða sig norðarlega í Barentshafs. Skipin veiða því krabbann við krefjandi aðstæður langt frá landi. Á síðasta ári völdu flest skip sem þessar veiðar stunda að vinna krabbann um borð.

Siikavuopio telur að snjókrabbaveiðin muni verða sú næst mikilvægasta í Barentshafi á eftir þorskveiðunum. En hversu ábótasöm hún mun reynast mun fyrst og síðast ráðast af hversu vel gengur að ráða við helstu kostnaðarliðina við veiðarnar. Það geri hugmyndina um nýtingu á aukaafurðum við ufsaveiðarnar svo mikilvæga, því beitan er langstærsti kostnaðarliður útgerðanna við veiðarnar.