þriðjudagur, 22. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gluggi inn í greinina

Guðsteinn Bjarnason
5. febrúar 2018 kl. 07:00

Námsbraut í haftengdri nýsköpun flytur með Þekkingarsetri Vestmannaeyja í Fiskiðjuhúsið. MYND/GUNNAR INGI

Diplómanám í haftengdri nýsköpun við Háskólann í Reykjavík hefur verið í boði í Vestmannaeyjum síðan haustið 2016 og einnig í fjarnámi frá haustinu 2017.

Ásgeir Jónsson aðjúnkt segir fyrsta nemendahópnum hafa vegnað vel. Aðsókn hafi verið undir væntingum á öðru ári kennslunnar, en nú sé stefnt á að bæta við fjarkennslu á ensku

Diplómanám í haftengdri nýsköpun við Háskólann í Reykjavík hefur verið í boði í Vestmannaeyjum síðan haustið 2016 og einnig í fjarnámi frá haustinu 2017.

Ásgeir Jónsson aðjúnkt stýrir deildinni, sem hefur haft aðstöðu hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja.

„Þetta er góður gluggi inn í greinina og ég leyfi mér að fullyrða þetta sé afar hagnýtt nám. Á þessu eina ári fá nemendur mörg tækifæri til að vinna með fyrirtækjum og vinna að sinni hugarsmíð,“ segir Ásgeir.

Hann segir eins árs nám vissulega ekki þess eðlis að hægt sé að kafa djúpt ofan í alla hluti.

„Hugsunin er sú að þetta nám sé bæði fyrir fólk sem er að vinna í greininni, hafa útskrifast úr öðrum greinum eða þegar lokið hluta þess og nýstúdenta, og það er í sjálfu sér allt opið í því hvaða greinum fólk getur komið úr.“

Útrás í undirbúningi
Ásgeir segir að vel hafi gengið, en aðsóknin á öðru ári hafi þó verið minni en væntingar stóðu til.

„Við höfum miðað við að vera með tíu nemendur hverju sinni og á fyrsta árinu voru þeir níu sem hófu nám. Á öðru árinu byrjuðu þrír nemendur, sem voru vonbrigði miðað við hvað nemendum af fyrsta ári vegnaði vel,“ segir Ásgeir. Ásgeir en hópur nemenda vann árlega nýsköpunarkeppni HR og keppti fyrir hönd skólans í heimsmeistaramóti Háskóla í nýsköpun, Venture Cup. Þar hlaut hópurinn viðurkenningu fyrir besta vörumerkið, Volcano Seafood.

Þessi dræma aðsókn á öðru ári skólans varð til þess að hraðað var áformum um að hefja kennslu á netinu á ensku.

„Við erum þá að horfa á stærri markað en bara hér heima, og það er svolítið spennandi,“ segir Ásgeir.

Þau tímamót urðu síðan á föstudaginn var að Þekkingarsetrið flutti í gamla Fiskiðjuhúsið við Ægisgötu sem gert hefur verið upp af miklum myndarbrag.

Spennandi fræði
Fyrsta nemendahópnum, sem hóf nám haustið 2016, hefur að sögn Ásgeirs vegnað vel. Tveir hafa haldið áfram námi við Háskólann á Akureyri, og eru þá í fjarnámi en búsettir í Vestmannaeyjum.

„„Nemendur hafa skilað sér í fjölbreyttar og krefjandi stöður. Má þar nefna starf gæðastjóra hjá Iðunni Seafoods, sérverkefni í markaðsmálum hjá Vinnslustöðinni, verkefnastjórnun hjá Sjávarklasanum, stöðvarstjóri samskipa í Eyjum og einn starfar í netagerð. Veiðitækni og veiðarfæraþróun er hluti af náminu hér,“ segir Ásgeir og bendir á að netagerð sé vissulega spennandi vettvangur þótt margir átti sig kannski ekki á því.

„Það er svo margt í þessari grein sem fólk áttar sig ekki á. Íslenskur veiðarfæraiðnaður er bara hugvit og hönnun, gríðarlega spennandi og skemmtilegur iðnaður sem Íslendingar eru leiðandi í. Sama má til dæmis segja um þurrkun. Nemendur sjá kannski bara þorskhausa fyrir sér í byrjun, en þetta er mikil verkfræði og eðlis- og efnafræði í líflegum bransa.“

Einhæf umræða
Ásgeir segir ímynd sjávarútvegs meðal þjóðarinnar nokkuð á skjön við veruleikann. Auka þurfi bæði námsframboð og fræðslu meðal þjóðarinnar til að auka innsýn í greinina.

„Flestir krakkar á landinu, jafnvel þau sem eru alin upp í sjávarbyggðunum, gera sér litla grein fyrir því hve fjölbreytt greinin er. Sýnilegi hluti greinarinnar í fjölmiðlum og umræðunni er ágreiningur um kvótamál. Sem er mikilvægt efni en má ekki heltaka alla umræðu um eina af burðaratvinnugreinum Íslands, sem er einn helsti vettvangur nýsköpunar og tækniframfara á Íslandi.“