sunnudagur, 22. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grænlenska fordæmið skoðað

4. ágúst 2017 kl. 11:00

Breski og enski fáninn á lofti við enska höfn. MYND/EPA

Áhyggjur Evrópusambandsins af væntanlegu áhugaleysi Noregs eftir Brexit

Brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu yrði líklega til þess að draga verulega úr áhuga Norðmanna á fiskveiðum innan lögsögu ESB-landanna.

Þetta er eitt af því sem kemur fram skýrslu um áhrif útgöngu Bretlands sem gerð var fyrir Evrópusambandið og birt í júní síðastliðnum. Ástæðan er sú að Norðmenn veiða tiltölulega lítið innan lögsögu annarra ESB-landa en Bretlands.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að þetta væntanlega áhugaleysi Norðmanna megi ekki verða til þess að skaða fiskveiðiflota Evrópusambandsins, sem eftir sem áður mun hafa mikinn hag af því að veiða innan lögsögu Noregs.

„Til að ná þessu fram verður að lýsa því skýrt yfir að aðgangur með norskar fiskveiðiafurðir að innri markaðnum verði háður því að ESB-flotinn fái aðgang að norskum fiskveiðiauðlindum,“ segir í skýrslunni, sem unnin var fyrir sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins.

Brotthvarf Breta kallar því ekki aðeins á nýja samninga ESB við Bretland um sjávarútveginn, heldur einnig við Noreg.

Aðgangur gegn aðgangi
Í skýrslu sjávarútvegsnefndarinnar er meðal annars bent á þá lausn sem fannst á samskiptum Grænlendinga við Evrópusambandið varðandi sjávarútveg eftir að Grænland varð fyrst allra landa til að segja upp aðild sinni að ESB árið 1985. Niðurstaðan varð sú að Evrópusambandið fékk, með ákveðnum takmörkunum, aðgang að grænlenskum fiskimiðum gegn því að Grænlendingar fengju tollfrjálsan aðgang að innri markaði ESB fyrir sjávarafurðir sínar.

Enn er stefnt að því að úrsögn Breta verði að veruleika innan tveggja ára, eða strax um vorið 2019. Bresk stjórnvöld gera sér vissulega grein fyrir því að samningaviðræður um skilmála úrsagnarinnar verði flóknar. Þar á meðal þurfi að leggja mikla vinnu í að finna leiðir til að semja um framtíðarfyrirkomulag sjávarútvegs, veiða og verslunar með fiskafurðir.

„Frá þeim degi sem Bretland gengur úr Evrópusambandinu,“ segir í skýrslu frá ESB-nefnd lávarðadeildar breska þjóðþingsins, sem birt var í vetur, „þurfa Bretar að hafa samið við Evrópusambandið og þau þriðju lönd sem ESB hefur gert fiskveiðisamninga við, þannig að hægt verði að hafa stjórn á sameiginlegum fiskistofnum, semja um aðgang breskra skipa sem veiða utan breskrar lögsögu þannig að báðir aðilar verði sáttir, og verslun með fiskafurðir geti haldið áfram.“

gudsteinn@fiskifrettir.is