mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grænland: Óbreyttur rækjukvóti 2010

29. desember 2009 kl. 09:00

Ákveðið hefur verið að rækjukvótinn við Vestur-Grænland árið 2010 verði sá sami og í ár eða rétt tæp 115 þúsund tonn.

Nánar tiltekið verður kvótinn 114.570 tonn. Heimamenn fá 110.570 tonn en skip frá ESB-ríkjum fá 4 þúsund tonn. Rækjuveiðar við Vestur-Grænland fara bæði fram við ströndina og í úthafinu. Kvótinn til úthafsveiða verður um 63 þúsund tonn en tæp 48 þúsund við ströndina. Ráðgjöf fiskifræðinga er nokkru minni en útgefinn kvóti en þeir ráðlögðu um 110 þúsund tonna veiði á árinu 2010.

Frá lokum níunda áratugar síðustu aldar hefur rækjuveiðin við Vestur-Grænland verið að aukast og náði hámarki á árunum 2004 og 2005. Við Austur-Grænland hefur rækjukvótinn verið 12.400 tonn á ári frá árinu 2004 og verður hann einnig óbreyttur á næsta ári.