laugardagur, 26. maí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró fer að fordæmi ICES

Gudsteinn Bjarnason
13. janúar 2018 kl. 08:00

Guðmundur Þórðarson, sérfræðingur á Hafrannsóknarstofnun. MYND/HAG

Upplýsingarnar í fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar verða ítarlegri með hverju árinu. Guðmundur Þórðarson ræðir samstarf stofnunarinnar við Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES.

„Upphaflega fórum við með okkar helstu stofna inn í ICES til að fá utanaðkomandi rýni á stofnmatið, og þá aðallega til staðfestingar á aðferðafræði okkar, til að sýna hagsmunaaðilum fram á að það væri verið að vinna rétt,“ segir Guðmundur Þórðarson sviðstjóri Botnsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknarstofnun.

Hann er fulltrúi Íslands í ráðgjafarnefnd ICES, ACOM, ásamt því að vera formaður vinnunefndar ICES um djúpfiskastofna. Hann ræddi við Fiskifréttir um samstarf Hafrannsóknarstofnunar við ICES.

„Breytingin á seinni árum hefur kannski verið sú að það sé komin meiri sátt hérna innanlands varðandi stofnmatið og fleira, en það að taka þátt í ICES og hafa stofnana þar hefur gagnast vel við að svara spurningum erlendra kaupenda og vottunaraðilum.“

Fiskveiðiráðgjöf Hafró er gerð í nánu samstarfi við ICES, og þótt íslenska matið sé enn sem fyrr það sem ræður hér á landi þá er ráðgjöf Hafró nú orðin nánast alltaf samhljóða ráðgjöf ICES.

Aflareglurnar
„Hluti skýringarinnar eru aflareglurnar sem búið er að setja fyrir flesta mikilvægustu stofnana, en með aflareglum er búið að taka flest túlkunaratriði út með því að segja fyrir fram hvernig aflamark skuli ákvarðað.“

Þetta segir Guðmundur að hafi gert hlutina bæði einfaldari og gagnsærri.

„Það er alltaf verið að tala um gagnsæi, og það er einmitt málið með aflareglurnar. Auk þess höfum við verið að fylgja svipaðri aðferðafræði og ICES með svoköluðum ráðgjafarreglum þannig að núna er auðvelt að taka upp ráðgjöfina okkar og sjá hvernig við fáum töluna eða öllu heldur ráðgjöfina. Það var ekki alltaf eins auðvelt.“

Framsetningin á íslensku ráðgjöfinni er líka farin að taka mið af ráðgjöfinni frá ICES

„Reynslan sýnir að ef þú útskýrir hvað þú ert að gera og fólk skilur það þá er það líklegra til að samþykkja það. Framsetningin á okkar gömlu ástandsskýrslu var óskýr miðað við þá framsetningu sem innleidd var fyrir tveimur árum. Núna síðasta vor birtum við einnig tækniskýrslur fyrir flesta stofna sem eru miklu ítarlegri. Þar eru upplýsingar sem oft voru ekki birtar i í gömlu ástandsskýrslunni, til dæmis um dreifingu veiðanna eftir árum, afla á sóknareiningu, sýnasöfnun og tegunda tilfærslur í kvótakerfinu.“

Guðmundur segir að menn átti sig oft ekki á því hve mikið af upplýsingum sé að finna í skýrslunum og jafnvel þeir sem starfa í greininni geri sér ekki alltaf grein fyrir því.

Sérfræðimatið víkur
Guðmundur segir það sjaldgæft að miklar breytingar verði á íslenska matinu í meðförum ICES.

„Það er þá yfirleitt mjög lítið og undanfarin þrjú til fjögur ár hefur ráðgjöf ICES verið samhljóða ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir helstu tegundir sem bestu gögnin eru til um, eins og til dæmis þorsk, ýsu og síld.“

Það komi hins vegar fyrir að ICES geri breytingar á mati annarra hafrannsóknarstofnana. Guðmundur þekkir þar vel til þar sem hann hefur tekið þátt í ICES-vinnu við að fara yfir matið frá öðrum þjóðum.

„Það gerist samt sérstaklega hjá tegundum sem ekki er mikið vitað um. Þar sem er kannski bara verið að notast við breytingar á stofnvísitölum úr röllum, eins og til dæmis á við um margar flatfiskategundirnar okkar.“

Almennt hafi samt dregið töluvert úr slíkum breytingum eftir að ICES færði sig yfir í að vera með vel skilgreindar ráðgjafarreglur í staðinn fyrir að byggja meira á sérfræðiáliti

„Þá má segja að ráðgjöfin sé fengin með reiknireglu, þessar reiknireglur hafa hinsvegar verið prófaðar ýtarlega m.t.t. þess að þær samræmist varúðarnálgun og eiga því að leiða til, sé þeim fylgt, sjálfbærar nýtingar.“

Þekking okkar á stofnunum er mjög misjöfn og í raun er það hún sem ræður því hversu nákvæm veiðiráðgjöfin getur orðið. Ekki þykir óhætt að ráðleggja hámarksafrakstur nema þekkingin á stofninum sé mikil, þegar hún er minni er stuðst við varúðarsjónarmið.

„Eftir því sem þú veist minna því meiri varúð þarf að sýna í ráðgjöfinni. Og bestu gögnin eru úr þeim stofnum þar sem mestar rannsóknir hafa verið gerðar og mesta vöktunin hefur átt sér stað.“

Hagsmunir ráða áherslu
Efnahagslegt mikilvægi einstakra fiskstofna hefur jafnan ráðið miklu um það hve mikið hefur verið lagt í rannsóknir og vöktun á stofninum.

„Menn hafa ekki verið að vakta stofna nema þeir hafi mikið efnahagslegt mikilvægi, þannig að rannsóknir og vöktun hér hafa mest beinst að tegundum eins og þorski, ýsu, ufsa, síld og svo loðnunni, þótt loðnan sé náttúrlega þannig að mikil óvissa er alltaf með hana.“

Á hverju ári hefur gríðarmikil vinna farið í að safna gögnum um fiskstofnana. Þessi vinna tekur tíma en með árunum hefur safnast saman mikið af gögnum um þær tegundir sem mest hafa verið rannsakaðar.

„Á hinn bóginn er mjög lítið til af gögnum um aðrar tegundir eins og blálöngu svo dæmi sé tekið, sem er mjög erfitt að aldurslesa. Blálanga hefur ekki verið stór stofn í veiðum þannig að þrýstingurinn á að veita hámarksafrakstursráðgjöf hefur ekki verið mikill. Þetta spilar allt saman.“

Þarna ræður efnahagslegt mikilvægi miklu um það hve mikið er lagt í rannsóknir og vöktun á mismunandi stofnum.

Takmörk þekkingar
„En svo er það líka þannig að jafnvel þótt við hefðum fullt af peningum þá er náttúran bara þannig að mjög erfitt er að svara öllum spurningum varðandi stofnmat og ráðgjöf,“ segir Guðmundur. Sumir stofnar séu þannig að engin leið sé að vita mikið um þá, að minnsta kosti ekki enn sem komið er.

„Alla vega ekki miðað við það sem er raunhæft að gera,“ segir hann og tekur dæmi af gulllaxi.

„Sú tegund heldur sig niðri við botn hluta sólarhringsins og svo fer hún stundum upp. Þá veiðist hún stundum í rosalegum torfum og þetta gerir til dæmis allt mat úr stofnmælingu mjög ónákvæmt. Vísitalan getur tvöfaldast eða jafnvel þrefaldast á einu ári og hrunið svo niður árið eftir. Ég sé til dæmis ekki fyrir mér að við myndum nokkurn tímann geta verið með sérstakt gulllaxarall sem tæki á öllum þessum þáttum, og svipað er með margar aðrar tegundir. Ufsinn er mjög erfiður í ralli, á það til að fara upp i sjó og veiðast í torfum sem eru allt svipað stórir fiskar. Karfinn er líka erfiður. Gullkarfinn kemur inn í risaholum sem valda þá stórum óvissumörkum í rallinu. Það er fullt af alls konar svona þáttum sem valda óvissu í stofnmati og ráðgjöf.“

Framar vonum
Hann minnir á að röllin hafi verið sérstaklega hönnuð fyrir ákveðnar tegundir.

„Vorrallið var alla vega hannað fyrir þorsk, en svo hefur komið í ljós að það virkar ágætlega fyrir mjög margar aðrar tegundir. Og eins er það með haustrallið, sem var hannað fyrir djúpkarfa og grálúðu en segir okkur líka ýmislegt um margar aðrar tegundir. Áherslan hefur sem sagt verið á þessar aðaltegundir, en svo hefur reynslan sýnt að það sem hefur komið út úr röllunum er í raun miklu meira en fólk þorði kannski að vona til að byrja með. Við teljum okkur til dæmis geta notað vorrallið fyrir ufsa, það hefði kannski enginn trúað því til að byrja með. Þannig erum við komin með einhverjar vísitölur fyrir flesta botnfiska þó menn hafi í upphafi talið að það væri aðallega þorskur og ýsa sem þetta yrði nothæft fyrir. Við bindum einnig vonir við að nýtt flatfiskarall muni með tíð og tíma mynda tímaraðir um nýliðun flatfiska og gefa upplýsingar um viðgang sílis í kringum landið. Síli er mikilvæg tegund sem ekki er nytjafiskur en er mikilvæg bráð fyrir ýmsar tegundir eins og þorsk, ýsu og lunda.“

Stofnunin hyggst einnig fjalla meira um bæði blandaðar veiðar og meðafla í skýrslum sínum.

„Þú ferð ekkert út og veiðir bara þorsk, þú færð alltaf eitthvað annað með. Meðaflinn er líka alltaf að verða stærra og stærra mál. Það er alltaf verið að spyrja okkur meira út í þetta af kaupendum.“

Kröfur um sjálfbærni
Hann segir líka greinilegt að meiri sátt sé komin um ráðgjöfina núna en áður var.

„Að minnsta kosti upplifum við það þannig. Umræðan núna er farin að snúast síður um að Hafrannsóknastofnun skilji ekki hvað er að gerast á miðunum. Núna umræðan við hagsmunaaðila meira orðin samtal um það hvar sé skortur á þekkingu og hvað megi bæta. Umræðan um það hvort það megi veiða meira hefur líka dofnað mikið, þótt hún sé vissulega enn til staðar.“

Þessa breytingu segir hann mega rekja að stórum hluta til þess að kaupendur sjávarafurða eru í vaxandi mæli farnir að gera kröfur um að veiðarnar séu sjálfbærar.

„Íslendingar vilja selja inn á markaði sem borga vel og það eru markaðir sem krefjast þess að þetta sé sjálfbært. Það er spurning hvort þú viljir selja í dýrar matvörukeðjur í Bretlandi eða í fangelsi í Bandaríkjunum, selja gæði eða magn.“

Guðmundur segir þau mál reyndar ekki beinlínis heyra undir Hafrannsóknarstofnunina. Hins vegar hafi menn tekið eftir því að þótt afli til dæmis á bolfiski hafi verið svipaður hafi verðmætið margfaldast.

„Verðmæti þorskafurða hefur til dæmis aukist mjög mikið. Það er búið að vinna hörðum höndum að því að tryggja gott hráefni og rétta meðhöndlun, til að geta selt afurðina inn á dýrustu markaði, inn á veitingahús, til fólks sem vill borga fyrir gott hráefni veitt úr sjálfbærum stofnum.“