mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró fylgist með merkjasendingum frá steypireyði

18. ágúst 2009 kl. 16:57

Hafrannsóknastofnun hefur fylgst í næstum tvo mánuði með steypireyði sem skotið var gervitunglamerki í hér við land. Hvalurinn hefur synt að minnsta kosti 7.700 kílómetra á þessu tímabili.

Gervitunglamerkinu var skotið í hvalinn á Skjálfandaflóa 23. júní síðastliðinn en síðan hefur skepnan verið að miklu ferðalagi, fyrst norður í haf en síðan suður með austurströnd Grænlands og svo yfir á Reykjaneshrygginn.  

Ferðamynstur steypireyðarinnar hefur einkennst af röskum sundsprettum milli þess sem hvalurinn hefur dvalið á afmörkuðum svæðum í 5-15 daga, líklega við fæðunám en steypireyður er talin éta eingöngu ljósátu.

Nú nálgast sá tími sem vænta má að steypireyðar og aðrir skíðishvalir haldi suður á bóginn til vetrardvalar og vonast Hafrannsóknastofnun til að merkjasendingar endist nógu lengi til að gefa vísbendingar um haustfar og hugsanlega vetrarstöðvar tegundarinnar.

Nánar segir frá steypireyðinni á vef Hafrannsóknastofnunarinnar. Sjá HÉR.